Keflavíkurflugvöllur
Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var vígð og tekin í notkun í apríl 1987. Hún var þá ríflega 20 þúsund fermetrar að stærð. Nú er hún 73 þúsund fermetrar og því 3,5 sinnum stærri en við opnun. Á sama tíma hefur fjöldi farþega um flugvöllinn þrettánfaldast, farið úr 750 þúsund fyrsta árið í 9,8 milljónir árið 2018. Það er langt umfram grunnfarþegaspá uppbyggingaráætlunar Keflavíkurflugvallar sem gerð var fyrir fjórum árum. Þar var gert ráð fyrir 8,8 milljón farþegum árið 2025 og 13,8 milljón farþegum 2040.
Það er því ljóst að til þess að uppfylla alþjóðlega þjónustustaðla nægilega vel þarf að stækka flugvöllinn og er uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar gerð til að meta þessa þörf. Byggt er á umfangsmikilli farþegagreiningu. Verkefnum áætlunarinnar er skipt í flugstöðvar- og flugvallarkerfisverkefni. Flugstöðvarverkefnin samkvæmt uppbyggingaráætluninni eru fjögur talsins:
- Áframhaldandi breikkun landgangs á milli norður- og suðurbygginga, með nýjum landamærum og stækkun veitingasvæðis.
- Norðurbygging stækkuð til austurs með rými fyrir farangursskimun.
- Nýr landgangur með allt að 17 flugvélahliðum með landgöngubrúm ásamt hliðum fyrir fjarstæði.
- Ný afgreiðslusvæði komu- og brottfararfarþega í nýrri norðurbyggingu.
Flugvallarkerfisverkefnum er ætlað að auka afköst og öryggi flugbrautakerfis og greiða úr flöskuhálsum sem þar gætu myndast. Undir þau verkefni falla afísingarhlað, tvær nýjar akbrautir, flýtirein og aðrar tengingar flughlaðs og akbrauta.
Á árinu 2018 hófst hófst hönnun á fyrsta flugstöðvarverkefninu, hönnun nýrrar tengibyggingar milli norður- og suðurbygginga flugstöðvarinnar. Framkvæmdir við hana gætu hafist 2020. Um er að ræða u.þ.b. 30 þúsund fermetra framkvæmd. Þá er útboð vegna verkefnastjórnar á hönnun og byggingu nýs landgangs í undirbúningi.