Hoppa yfir valmynd

Svipmyndir frá árinu 2019

ÖRYGGISVIKa ISAVIA haldin í annað sinn

Frábær þátttaka starfsmanna Isavia var á öryggisviku Isavia en hún var haldin dagana 14. til 18. október. Þetta er í annað sinn sem haldin var sérstök öryggisvika þar sem boðið er upp ýmsa viðburði til að efla þekkingu og vitund varðandi öryggismál. Að þessu sinni var boðið upp á fyrirlestra og fræðslufundi um öryggismál. Starfsfólki Isavia var boðið í heimsóknir til flugvallaþjónustu og í flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Að þessu sinn var einnig boðið upp á fræðslu um ferðalag ferðatöskunnar í gegnum flugvöllinn og sérstakar FOD göngur á Keflavíkurflugvelli og flugvöllunum í Reykjavík og á Akureyri.

ISAVIA TEKUR ÞÁTT Í SAMSTARFI UM LAND VIÐ KEFLAVÍKURFLUGVÖLL

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Auk Isavia undirrituðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og fulltrúar Reykjanesbæjar og Suðurnesbæjar yfirlýsinguna.Fram kemur í yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að viljayfirlýsingin sé undirrituð í ljósi vaxtar í ferðaþjónustu og flugstarfsemi samfara mikilli uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, sem hafi gjörbreytt stöðu atvinnumála, vinnumarkaðar og samfélags í nágrenni flugvallarins.

KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR HÆTTI KOLEFNISLOSUN Í STARFSEMI SINNI FYRIR 2050

Á 29. ársþingi ACI EUROPE, evrópudeildar Alþjóðasamtaka flugvalla, skrifaði Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, undir skuldbindingu um að Keflavíkurflugvöllur muni hætta allri kolefnislosun í beinni starfsemi sinni í síðasta lagi árið 2050. Þessi yfirlýsing var gefin út samfara því að ACI EUROPE tilkynntu um NetZero 2050-skuldbindingu rekstraraðila flugvalla með formlegum hætti. Hún felur í sér að flugvellirnir hætta kolefnislosun í sinni starfsemi í síðasta lagi árið 2050.  

NÝ STÖÐVUNARLJÓS tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli

Tekinn voru í notkun á Keflavíkurflugvelli ný stöðvunarljós, svo nefndar stöðvunarslár (Stop bar). Svo skemmtilega vill til að kveikt var á þessum ljósum um leið og Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, var haldin í tuttugasta sinn.  En Isavia er einn af  bakhjörlum hátíðarinnar og hafa verið það síðustu ár. 

OPTICAL STUDIO OG MATHÚS FENGU ÞJÓNUSTUVERÐLAUN

Isavia hefur síðustu ár verðlaunað rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli fyrir framúrskarandi þjónustu. Verslanir og veitingastaðir eru verðlaunaðir fyrir að skara fram úr í þjónustu við farþega sem fara um flugvöllinn. Litið er meðal annars til þess hvernig afgreiðslufólk nálgast viðskiptavini og hvort bæði vörur og upplýsingar um verð séu aðgengilegar. Að þessu sinni féllu þjónustuverðlaun verslana í hlut sjóntækjaverslunarinnar Optical Studio. Þjónustuverðlaun veitingastaða hlaut Mathús, sem rekið er af Lagardére. Niðurstaðan nú, sem fyrr, byggir á markaðsrannsóknum og könnunum sem gerðar eru á Keflavíkurflugvelli.

SAMFÉLAGSSKÝRSLA ISAVIA VERÐLAUNUÐ

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu Isavia verðlaun fyrir Samfélagsskýrslu ársins 2019. Alls bárust 29 tilnefningar um 16 fyrirtæki. Markmiðið með viðurkenningunni var að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega opinberlega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri fyrirtækja skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi.  Við hjá Isavia þökkum innilega fyrir þann heiður sem okkur var sýndur með verðlaununum fyrir samfélagsskýrslu ársins. Fjöldi starfsmanna Isavia lögðu mikið á sig til að greina með skilmerkilegum og aðgengilegum hætti frá því sem Isavia stendur fyrir í okkar samfélagi.

SAMIÐ VIÐ BRESKA FYRIRTÆKIÐ MACE VEGNA FRAMTÍÐARUPPBYGGINGAR KEFLAVÍKURFLUGVALLAR

Isavia gerði langtímasamning við breska byggingar- og ráðgjafafyrirtækið Mace um verkefnaumsjón og verkeftirlit vegna fyrirhugaðra framkvæmda við stækkun Keflavíkurflugvallar. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Jason Millett, rekstrarstjóri hjá Mace, undirrituðu samning þess efnis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar mánudaginn 16. desember 2019, m.a. að viðstöddum Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi. Mace hefur umfangsmikla reynslu af stórframkvæmdum við flugvelli víða um heim, þar á meðal á Heathrow-flugvelli í London, Schipol-flugvelli í Amsterdam og flugvöllunum í Dublin, Manchester, Doha, Mumbai og Sydney.

SKIPULAGSBREYTINGAR HJÁ ISAVIA

Stjórn Isavia samþykkti að gerðar verði breytingar á skipulagi félagsins. Með þeim breytingum verður gerður aðskilnaður á milli ólíkra rekstrareininga þess. Áformað er að breytingarnar taki formlega gildi um áramótin. Breytingarnar fólu það í sér að flugvallasvið, sem rekur innanlandsflugvelli, og flugleiðsögusvið, sem sinnir flugleiðsöguþjónustu, færast í dótturfélög en rekstur Keflavíkurflugvallar varð eftir hjá móðurfélaginu Isavia.

STARFSMENN ISAVIA SÖFNUÐU 3,6 MILLJÓNUM TIL GÓÐRA MÁLEFNA

51 starfsmaður frá Isavia tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Flestir hlupu 10 km, fimm sem hlupu hálft maraþon og einn hljóp heilt maraþon. Isavia hét á þá starfsmenn sem tóku þátt og bætti 50% ofan á heildar söfnun að hámarki 100 þúsund krónur á mann. Samtals safnaði starfsfólk Isavia 2.538.500 krónum til góðra málefna og bætti Isavia 1.096.250 krónum við þá upphæð. Það er því samanlagt 3.637.750 krónur. Meðal þeirra góðgerðafélaga sem starfsfólk Isavia studdu eru Ljósið, AHC samtökin, Styrktarfélag Krabbameinssjúkra barna og Kraftur.

UPPLÝSINGAÞJÓNUSTA FLUGMÁLA SEMUR VIÐ LUFTFARSVERKET

Isavia undirritaði þjónustusamning við LFV (Luftfarsverket) í Svíþjóð um aðgang að nýjum hugbúnaði fyrir upplýsingaþjónustu flugmála (AIS). Isavia hefur undanfarin ár unnið að því að mæta nýjum kröfum um bætt gæði flugmálagagna og flugmálaupplýsinga. Samningurinn felur í sér samstarf á milli þjónustuveitenda á Íslandi, í Svíþjóð og Danmörku um sameiginlega lausn sem mun auka hagkvæmni og skilvirkni.

VEFsíða ISAVIA FÉKK TVENN VERÐLAUN

Vefur Isavia hlaut tvenn verðlaun á verðlaunahátíð Samtaka vefiðnaðarins (SVEF) föstudaginn 22. febrúar sl. Isavia.is var valinn besti vefur í flokki stórra fyrirtækja 2018 og hlaut einnig viðurkenningu Blindrafélagsins og Siteimprove sem aðgengilegasti vefurinn. Vefurinn hefur sameinað alla upplýsingagjöf, um flugvelli Isavia og flugleiðsögu, á einum stað. Farþegar geta fundið upplýsingar um flug og annað sem tengist undirbúningi ferðalags, bæði innanlands og erlendis.

VIÐURKENNING FYRIR ÞJÓNUSTU VIÐ FARÞEGA Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

Alþjóðasamtök flugvalla (Airports Council International – ACI) veitti Keflavíkurflugvelli verðlaun í flokki Evrópskra flugvalla með 5-15 milljónir farþega fyrir bestu upplifun viðskiptavina árið 2018. Verðlaunin eru byggð á árlegum niðurstöðum úr þjónustukönnun meðal brottfarafarþega sem nefnist „Airport Service Quality“ (ASQ). Keflavíkurflugvöllur var meðal 20% efstu flugvalla í sínum stærðarflokki í Evrópu fyrir heildaránægju með flugvöll og hlaut því verðalaun. Skor Keflavíkurflugvallar var 4,20 (á skalanum 1-5) sem skilaði honum í 4.sæti af 35 flugvöllum.

23 VERKEFNI FENGU STYRK ÚR SAMFÉLAGSSJÓÐI ISAVIA

Trúðaheimsóknir á Barnaspítala Hringsins, flugsýning á Reykjavíkurflugvelli og forvarnarstarf gegn fíkniefnum og Evrópumót í keltneskum fangbrögðum í Reykjanesbæ voru meðal þess sem hlaut styrk úr samfélagssjóð. Styrkirnir voru veittir við hátíðlega athöfn þann 5. febrúar 2019 en aldrei hafa fleiri málefni hlotið styrk úr sjóðnum. Við val á styrkþegum er áhersla lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál.

ISAVIA ÁFRAM EINN AF HELSTU BAKHJÖRLUM LJÓSANÆTUR

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hafa undirritað samstarfssamning Isavia og Reykjanesbæjar vegna Ljósanætur. Ljósanótt var haldin í tuttugasta sinn. Þetta er árleg hátíð í Reykjanesbæ. Boðið er upp á tónleika, sýningar og margs konar samkomur meðan á hátíðinni stendur. Framlög Isavia eru liður í því að styðja við metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins þannig að það dafni og fái að njóta sín.

ISAVIA FÆR JAFNLAUNAVOTTUN

Jafnlaunavottun hjá Isavia lauk árinu 2019. Var úttektin staðfest af Jafnréttisstofu í framhaldi og lauk því Innleiðingu verklags í samræmi við jafnlaunastaðal. Það var BSI á Íslandi, faggildur vottunaraðili, sem staðfesti að Isavia uppfyllti öll skilyrði jafnlaunavottunar.
Isavia hefur um árabil lagt mikla áherslu á jafnvægi í launamálum kynjanna og hefur sú áhersla skilað þessum góða árangri. Félagið hefur í þrígang áður hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PWC.


ELDSNEYTISNOTKUN ISAVIA KOLEFNISJÖFNUÐ Í SAMVINNU VIÐ KOLVIÐ OG VOTLENDISSJÓÐ

Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia, Reynir Kristinsson, stjórnarformaður kolefnissjóðsins Kolviðs, og Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs, undirrituðu samninga um kolefnisjöfnun allrar eldsneytisnotkunar Isavia. Samningarinn gildir næstu þrjú árin. Eldsneytisnotkun vegur þyngst í kolefnisspori Isavia. Stærsta hluta þessarar notkunar má rekja til þjónustu og viðhalds á flugbrautum og athafnasvæðum flugvalla og er sú þjónusta  að miklu leyti háð veðri. 

FJÖLMENNI Á SÝNINGU TOLLA Í FLUGSTÖÐINNI Í VESTMANNAEYJUM

Fullt var út úr dyrum þegar sýning á nýjum olíumálverkum eftir Tolla var opnuð á Vestmannaeyjaflugvelli 4. júlí síðastliðinn. Sýningin er samvinnuverkefni Isavia og Tolla.
Tolli hefur á síðustu mánuðum ferðast um landið og sett upp sýningar á verkum sínum í flugstöðvum víða um land. Fyrsta sýningin var haldin í flugstöðinni á Egilsstöðum síðastliðinn september en síðan var sýnt í flugstöðvunum á Akureyri og Ísafirði. Málverkasýningin í flugstöðinni í Vestmannaeyjum stendur fram yfir þjóðhátíð.

FYRSTA FLUG JET2.COM OG JET2CITYBREAKS TIL ÍSLANDS

Fyrsti hópur ferðamanna breska flugfélagsins Jet2.com og ferðaskrifstofunnar Jet2CityBreaks kom til Keflavíkurflugvallar frá Glasgow í Skotlandi. Þetta var fyrsta skipulagða ferð félaganna til Íslands, þar sem viðskiptavinir nýttu sér einstakt tækifæri til að sjá hin mögnuðu norðurljós í fjögurra nátta ferð.

FLUGSLYSAÆFING Á FLUGVELLINUM Á GJÖGRI, HORNAFJARÐARFLUGVELLI OG Í GRÍMSEY

Flugslysaæfingar voru haldnar á flugvöllunum Gjögri, Hornarfjarðarflugvelli og Grímsey. Isavia og samstarfsaðilar hafa haldið um 50 flugslysaæfingar samtals frá því árið 2000.


Nýr forstjóri isavia

Stjórn Isavia réð Sveinbjörn Indriðason í starf forstjóra Isavia og tók hann formlega við starfinu þann 13 Júní 2019. Sveinbjörn var áður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia.

ISAVIA SEMUR VIÐ ELKO UM AÐSTÖÐU UNDIR REKSTUR RAFTÆKJAVERSLANA Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko, undirrituðu samning um aðstöðu undir tvær raftækjaverslanir Elko í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Samningurinn er til þriggja ára með möguleika á tveggja ára framlengingu, eitt ár í senn.