ÖRYGGISVIKa ISAVIA haldin í annað sinn
Frábær þátttaka starfsmanna Isavia var á öryggisviku Isavia en hún var haldin dagana 14. til 18. október. Þetta er í annað sinn sem haldin var sérstök öryggisvika þar sem boðið er upp ýmsa viðburði til að efla þekkingu og vitund varðandi öryggismál. Að þessu sinni var boðið upp á fyrirlestra og fræðslufundi um öryggismál. Starfsfólki Isavia var boðið í heimsóknir til flugvallaþjónustu og í flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Að þessu sinn var einnig boðið upp á fræðslu um ferðalag ferðatöskunnar í gegnum flugvöllinn og sérstakar FOD göngur á Keflavíkurflugvelli og flugvöllunum í Reykjavík og á Akureyri.
ISAVIA TEKUR ÞÁTT Í SAMSTARFI UM LAND VIÐ KEFLAVÍKURFLUGVÖLL
Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Auk Isavia undirrituðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og fulltrúar Reykjanesbæjar og Suðurnesbæjar yfirlýsinguna.Fram kemur í yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að viljayfirlýsingin sé undirrituð í ljósi vaxtar í ferðaþjónustu og flugstarfsemi samfara mikilli uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, sem hafi gjörbreytt stöðu atvinnumála, vinnumarkaðar og samfélags í nágrenni flugvallarins.
KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR HÆTTI KOLEFNISLOSUN Í STARFSEMI SINNI FYRIR 2050
Á 29. ársþingi ACI EUROPE, evrópudeildar Alþjóðasamtaka flugvalla, skrifaði Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, undir skuldbindingu um að Keflavíkurflugvöllur muni hætta allri kolefnislosun í beinni starfsemi sinni í síðasta lagi árið 2050. Þessi yfirlýsing var gefin út samfara því að ACI EUROPE tilkynntu um NetZero 2050-skuldbindingu rekstraraðila flugvalla með formlegum hætti. Hún felur í sér að flugvellirnir hætta kolefnislosun í sinni starfsemi í síðasta lagi árið 2050.
NÝ STÖÐVUNARLJÓS tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli
Tekinn voru í notkun á Keflavíkurflugvelli ný stöðvunarljós, svo nefndar stöðvunarslár (Stop bar). Svo skemmtilega vill til að kveikt var á þessum ljósum um leið og Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, var haldin í tuttugasta sinn. En Isavia er einn af bakhjörlum hátíðarinnar og hafa verið það síðustu ár.
OPTICAL STUDIO OG MATHÚS FENGU ÞJÓNUSTUVERÐLAUN
Isavia hefur síðustu ár verðlaunað rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli fyrir framúrskarandi þjónustu. Verslanir og veitingastaðir eru verðlaunaðir fyrir að skara fram úr í þjónustu við farþega sem fara um flugvöllinn. Litið er meðal annars til þess hvernig afgreiðslufólk nálgast viðskiptavini og hvort bæði vörur og upplýsingar um verð séu aðgengilegar. Að þessu sinni féllu þjónustuverðlaun verslana í hlut sjóntækjaverslunarinnar Optical Studio. Þjónustuverðlaun veitingastaða hlaut Mathús, sem rekið er af Lagardére. Niðurstaðan nú, sem fyrr, byggir á markaðsrannsóknum og könnunum sem gerðar eru á Keflavíkurflugvelli.
SAMFÉLAGSSKÝRSLA ISAVIA VERÐLAUNUÐ
Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu Isavia verðlaun fyrir Samfélagsskýrslu ársins 2019. Alls bárust 29 tilnefningar um 16 fyrirtæki. Markmiðið með viðurkenningunni var að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega opinberlega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri fyrirtækja skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi. Við hjá Isavia þökkum innilega fyrir þann heiður sem okkur var sýndur með verðlaununum fyrir samfélagsskýrslu ársins. Fjöldi starfsmanna Isavia lögðu mikið á sig til að greina með skilmerkilegum og aðgengilegum hætti frá því sem Isavia stendur fyrir í okkar samfélagi.