Hoppa yfir valmynd

VIÐSKIPTAVINIR

Þjónusta og samvinna

Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrar og Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar, fjalla um áherslu fyrirtækisins á þjónustu


Samskipti við notendur og rekstraraðila fara fyrst og fremst fram á reglulegum fundum. Samskipti við farþega eiga sér stað með beinum samskiptum starfsfólks félagsins á flugvöllunum og með öllum helstu samskiptaleiðum; síma, tölvupósti, vefjum og samfélagsmiðlum og með reglubundnum viðskiptavinakönnunum.

Samskipti við flugfélög sem fara um flugvelli Isavia og flugstjórnarsvæði fara meðal annars fram á reglulegum notendanefndarfundum sem öllum notendum er boðið á auk funda með hverju og einu þeirra eftir þörfum. Notendanefndir flugvalla starfa í samræmi við ákvæði loftferðalaga og reglugerðar. Í þeim sitja fulltrúar allra flugfélaga sem nota flugvöllinn að staðaldri og umboðsaðila þeirra. Á fundunum gefst notendum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir um rekstur, gæði þjónustu, gjaldtöku, nýframkvæmdir, turnþjónustu eða önnur atriði sem snerta mikilvæga hagsmuni þeirra. Notendanefnd Keflavíkurflugvallar fundar eins oft og þurfa þykir, en þó aldrei sjaldnar en árlega. Notendanefnd innanlandsflugvallanna fundar að jafnaði einu sinni á ári.

Samráð er haft við notendur flugleiðsöguþjónustu um rekstur og fjárfestingar og fer það samráð fram á árlegum notendafundum. Samráð um aðra þætti flugleiðsöguþjónustu fer einnig fram með notendum á vettvangi Skipulagsnefndar ICAO (NAT-SPG) fyrir Norður-Atlantshaf. Reglulegir fundir eru haldnir með notendum auk samskipta við einstaka notendur eða fulltrúa notendahópa ef nauðsyn þykir. Í notendasamráðinu hefur samstarfsaðili Isavia, Veðurstofa Íslands, hlutverki að gegna varðandi veðurupplýsingar og er vöktunaraðili vegna eldgosa og annarra náttúruhamfara.

Á Keflavíkurflugvelli hafa samræmdar þjónustukannanir verið framkvæmdar undanfarin 15 ár. Um er að ræða alþjóðlega könnun á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) sem mælir ánægju farþega á yfir 350 flugvöllum um allan heim og gefur góðan samanburð.

Samskipti við rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli fara fram á sameiginlegum fundi eða með hverjum og einum. Fastir hópfundir eru með verslunar- og veitingaaðilum fjórum sinnum á ári, frammistöðufundir með hverjum og einum 3–4 sinnum á ári og verslunarstjórakaffi sex sinnum á ári. Árlega veitir Isavia þjónustuverðlaun til þeirra verslunar- og veitingaðila sem náð hafa bestum árangri í þjónustu og sölu til farþega. Stærri notendafundir fyrir alla hagsmuna- og þjónustuaðila á og við flugvöllinn fara nú fram fyrir opnum dyrum.

Samskipti við farþega fara fyrst og fremst fram með aðstoð ýmissa miðla þar sem tekið er við fyrirspurnum og þeim svarað. Isavia stendur fyrir reglulegum markaðs- og þjónusturannsóknum á flugvöllum sínum. Á Keflavíkurflugvelli hafa samræmdar þjónustukannanir verið framkvæmdar undanfarin 15 ár. Um er að ræða alþjóðlega könnun á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla ACI sem mælir ánægju farþega á yfir 350 flugvöllum um allan heim og gefur góðan samanburð. Gögnum um 34 þjónustuþætti á flugvellinum er safnað allt árið. Niðurstöður eru birtar ársfjórðungslega og því hægt að bregðast skjótt við þáttum sem þarfnast úrbóta. Ánægja farþega er mæld á kvarðanum 0–5 og hefur Keflavíkurflugvöllur alla tíð verið ofarlega á evrópska listanum, sem telur yfir 100 flugvelli vítt og breitt um álfuna. Stök tímabil finnast þó þar sem heildaránægja fer niður og má yfirleitt rekja það til framkvæmda við endurbætur á flugstöðinni.

Verðlaun í þjónustukönnun ACI eru mesta viðurkenning sem stendur rekstraraðilum flugvalla heimsins til boða og eru þau veitt fyrir framúrskarandi þjónustu og upplifun viðskiptavina. Árið 2019 hlaut Keflavíkurflugvöllur viðurkenningu ACI fyrir að vera á meðal bestu flugvalla í sínum stærðarflokki (5-15 milljónir árlegra farþega) hvað varðar þjónustugæði.