UMHVERFISMÁL
Stefna í umhverfismálum
Umhverfið
Isavia er fyrirtæki sem hefur unnið að umbótum í umhverfismálum á sama tíma og það hefur tekist á við gríðarlega aukningu á umfangi og farþegafjölda. Fyrirtækið hefur það að leiðarljósi að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni í lágmarki í sátt og samvinnu við samfélagið og farþega og vera þannig hluti af góðu ferðalagi.
Isavia setti sér umhverfisstefnu árið 2015 og hefur verið unnið ötullega að markmiðum stefnunnar síðan þá. Á vordögum 2018 var samþykkt aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum sem var svo endurskoðuð og uppfærð í lok árs 2019. Í henni eru settar fram ýmsar aðgerðir sem miða að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar til að ná markmiðum félagsins. Þar er meðal annars lögð áhersla á endurnýjun bílaflota í vistvænni ökutæki, aukna sorpflokkun, uppbyggingu innviða fyrir vistvæn ökutæki og kolefnisjöfnun.
Meðal aðgerða til að ná markmiðum félagins er áhersla á endurnýjun bílaflota í vistvænni ökutæki, aukna sorpflokkun, uppbyggingu innviða fyrir vistvæn ökutæki og kolefnisjöfnun starfseminnar.
Á síðasta ári hóf Isavia samstarf með Klöppum – Grænum lausnum, að gagnagátt þar sem vöktun mikilvægra umhverfisþátta á borð við eldsneytisnotkun og sorpflokkun varð sýnilegri. Vandræði með gagntengingar við eldsneytisfélög gerðu það þó að verkum að uppgjör ársins 2019 var í upphafi rangt og raunveruleg losun reyndist meiri en upphaflegar niðurstöður gáfu til kynna. Þessar niðurstöður voru grundvöllur markmiðasetningar og annarra aðgerða. Verkefni Isavia til þess að ná markmiðum sínum er því ögn viðameira en það var í upphafi, en Isavia stefnir ótrautt áfram í að bæta frammistöðu sína í umhverfismálum.
Engin stór mengunaróhöpp áttu sér stað á síðasta ári né hafa úrskurðir fallið þar sem félagið hefur verið talið brjóta gegn umhverfisverndarlögum. Nokkur minniháttar eldsneytisóhöpp áttu sér stað við áfyllingu á flughlaði á Keflavíkurflugvelli. Þar var um að ræða minniháttar leka á malbik sem hreinsaðir voru upp.
Vatn
Isavia er meðvitað um mikilvægi þess að varðveita ferskleika og hreinleika grunnvatns í nærumhverfinu. Á Keflavíkurflugvelli hefur verkfræðiráðgjafarfyrirtækið Verkís haft yfirumsjón með grunnvatnsrannsóknum. Sýni voru tekin árið 2017, 2018 og nú síðast í mars og nóvember 2019. Bandaríkjaher var áður með aðstöðu á svæðinu og er almennt vitað að mengun fylgdi starfsemi hans þar. Vísbendingar um efnanotkun á flugvallasvæðinu finnast í grunnvatnssýnum úr öllum borholum. Þessar vísbendingar benda til mismikillar mengunar, en þó ekki í miklu magni. Niðurstöður rannsókna sýna flökt á efnainnihaldi en í grunninn virðist mengun fara minnkandi, þó erfitt sé að slá því föstu, til þess þarf að framkvæma áframhaldandi mælingar. Isavia mun því halda áfram mælingum og vöktun á gæðum grunnvatns.
Isavia sækir vatn sitt í veitur hvers staðar fyrir sig og hefur ekki endurnýtt eða endurunnið vatn af flugvallasvæðum. Isavia hefur einnig bætt fráveitulagnir undanfarin ár á alþjóðaflugvöllum sem jafnan tengjast fráveitukerfum viðkomandi sveitarfélaga. Árið 2016 var unnið að endurbótum á fráveitulögn frá vesturhluta Keflavíkurflugvallar sem fer í sjó fram. Reist var tveggja þrepa dælu– og hreinsistöð við Djúpavík sunnan Stafness í Sandgerðisbæ og ný og lengri útrás lögð í sjó fram. Að öðru leyti nýtir Isavia sér fráveitukerfi þeirra sveitarfélaga sem hver starfsstöð er í og er viðtakinn í öllum tilfellum sjór, en mismunandi er hversu mikil hreinsun er á fráveituvatninu. Olíuskiljur og settjarnir taka við bróðurparti þeirra mengandi efna sem að öðrum kosti myndu enda í fráveitunni.
Isavia er meðvitað um mikilvægi þess að varðveita ferskleika og hreinleika grunnvatns í nærumhverfinu.
Efnanotkun
Isavia notar bæði náttúruleg og lífbrjótanleg efni á flugvöllum landsins til afísingar. Sandur er notaður á innanlandsflugvöllum, fyrir utan 4000 lítra af afísingarvökva á Akureyrarflugvelli. Á Keflavíkurflugvelli eru notuð afísingarefni.
Efnin sem Isavia hefur notað eru Clearway F1 afísingarvökvi og Clearway SF3 afísingarkorn. Afísingarefnin eru annars vegar úr natríumformati og hins vegar úr kalíumformati og bera umhverfismerkið Bláa engilinn. Efnin eru lífbrjótanlegt og hafa lítil eitrunaráhrif á vatnsbúskap. Þau uppfylla allar tilskyldar umhverfis- og vistfræðilegar kröfur.
Notkun afísingarefna hefur aukist milli ára, en það má að nokkru rekja til þess að það svæði sem undir er í vetrarþjónustu er stærra með tilkomu fleiri fjarstæða en áður og vegna verra veðurs.
Magn afísingarefna á flugvöllum GRI G4-A06
2016 | 2017 | 2018 | 2019 | |
---|---|---|---|---|
Clearway SF3 afísingarkorn | 27 tonn | 58 tonn | 123 tonn | 129 tonn |
Clearway F1 afísingarvökvi | 54.300 lítrar | 79.959 lítrar | 216.000 lítrar | 438.000 lítrar |
Lífríki
Flugvallasvæði Isavia eru eins fjölbreytt hvað varðar lífríki eins og þau eru mörg. Reykjanesskaginn er Unesco jarðvangur og hefur mikla sérstöðu hvað varðar jarðminjar, sumar sem eru einstakar á heimsvísu. Líklega þekktasta dæmið þar um er hversu vel má sjá flekaskil Evrasíu – og Norður-Ameríkuflekana. Þó engar jarðminjar sé að finna á flugvallasvæði Keflavíkurflugvallar, er hann vissulega staðsettur á mjög jarðfræðilega merkilegu landsvæði.
Í áraraðir hefur Isavia fylgst mjög vel með dýralífi innan flugvallasvæða og greint nánasta umhverfi flugvalla m.t.t. ásóknar dýra og fugla. Ásókn villtra dýra er mjög mismunandi eftir flugvöllum enda svæðin mismunandi hvað varðar gróðurfar og fæðuframboð. Mikilvægur hluti af rekstri flugvalla er að stunda aðgerðir sem leiða til minni hættu fyrir flugfarþega og minnka líkurnar á árekstri dýrs og flugvélar. Það er gert með því að beita fjölbreyttum aðferðum við fælingar, t.d. með búsvæðastjórnun.
Starfsmenn Isavia sem sinna dýralífsmálum skrá fjölda og tegundir þeirra dýra sem sjást á flugvöllunum. Mikil vinna fer í að fylgjast með og kortleggja atferli dýra, sérstaklega fugla í og við flugvelli og býr starfsfólk, sem þessu sinnir, yfir mikilli þekkingu í dýralífsstjórnun. Á síðasta ári vann Náttúrustofa Reykjanes og Þekkingarsetur Suðurnesja úttekt á fuglalífi á Keflavíkurflugvelli. Í kjölfarið voru haldnir fræðslufundir fyrir starfsmenn Flugvallarþjónustunnar. Isavia skráir einnig alla mögulega árekstra fugla og annarra villtra dýra við flugvélar á öllum sínum flugvöllum.
Skráðir voru 11 staðfestir árekstrar fugla við flugvélar á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári. Á innanlandsflugvöllunum voru skráðir 12 árekstrar fugla við flugvélar.
Heildarfjöldi árekstra fugla við flugvélar árið 2019 GRI G4-A09
2018 | 2019 | |
Heildarfjöldi flughreyfinga | 193.070 | 173.176 |
Fjöldi árekstra fugla | 35 | 23 |
Árekstrar fugla á hverjar 10.000 flughreyfingar | 1.8 | 1.25 |
Árið 2018 gerði Reykjavíkurflugvöllur samkomulag við fyrirtækið Flygildi um að nýta flygildi til fuglafælinga á flugvallasvæðinu. Þetta samstarf hélt áfram á síðasta ári.
Í samantektinni hér að neðan eru nefnd þau villtu dýr og fuglar sem sést hafa á flugvallasvæði, flokkuð eftir válista alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN. Einnig er gerð grein fyrir lagalegri stöðu tegundanna á Íslandi, en stofnstærð hérlendis getur verið frábrugðin stofnstærðum á heimsvísu. Einnig er gerð grein fyrir tegundum sem ekki teljast í hættu samkvæmt IUCN, en njóta verndar samkvæmt íslenskum lögum.
Fjöldi tegunda á válista IUCN RED og tegundir í innlendum verndarflokki á
áhrifasvæði rekstrar GRI 403-4
Tegund | Fræðiheiti | Staða á válista IUCN | Lagaleg staða innanlands |
---|---|---|---|
Fálki | Falco rusticolus | Tegund í yfirvofandi hættu (VU) | Friðaður |
Hrafn | Corvus corax | Tegund í yfirvofandi hættu (VU) | Ekki friðaður |
Svartbakur | Larus marinus | Tegund í yfirvofandi hættu (VU) | Ekki friðaður |
Rita | Rissa tridactyla | Tegund í yfirvofandi hættu (VU) | Friðaður nema frá 1/9 til 15/3 |
Stormmáfur | Larus canus | Tegund í nokkurri hættu (NT) | Friðaður |
Rauðbrystingur | Calidris cantus | Tegund í nokkurri hættu (NT) | Friðaður |
Tjaldur | Haematopus ostralegus | Tegund í nokkurri hættu (NT) | Friðaður |
Æðarfugl | Somateria mollissima | Tegund í nokkurri hættu (NT) | Friðaður |
Jaðrakan | Limosa limosa | Tegund í nokkurri hættu (NT) | Friðaður |
Álft | Cygnus cygnus | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðuð |
Rjúpa | Lagopus muta | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðuð, nema á ákv. dögum á tímabilinu frá 1/11 til 30/11 |
Fýll | Fulmarus glacialis | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður nema frá 1/9 til 15/3 |
Skúmur | Catharacta skua | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður og talinn í bráðri hættu |
Stokkönd | Anas platyrhynchos | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður nema frá 1/9 til 15/3 |
Melrakki | Vulpes lagopus | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður |
Lómur | Gavia Stellata | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður |
Minkur | Mustela vision | Tegund ekki í hættu (LC) | Ekki friðaður |
Grágæs | Anser anser | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðuð nema frá 20/8 til 15/3 |
Heiðargæs | Anser brachyrhynchus | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðuð nema frá 20/8 til 15/3 |
Heiðlóa | Pluvialis apricaria | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðuð |
Hettumáfur | Larus ridibundus | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður nema frá 1/9 til 15/3 |
Kría | Sterna paradisaea | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðuð |
Margæs | Branta bernicla | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðuð |
Sílamáfur | Larus fuscus | Tegund ekki í hættu (LC) | Ekki friðaður |
Smyrill | Falco columbarius | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður |
Spói | Numenius phaeopus | Tegund ekki í hættu (LC) | Friðaður |