Hoppa yfir valmynd

Mikilvægir þættir

mikilvægir þættir hjá Isavia

Isavia gerir samfélagsskýrslu sína samkvæmt staðli Global Reporting Initiative, GRI Standards: Core ásamt sérákvæðum GRI-G4 um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Horft er til starfsemi félagsins og þeirra áhrifa sem hún hefur á efnahag, umhverfi og samfélagið.

Isavia leggur áherslu á víðtækt samráð við þá hagaðila sem treysta á þjónustu fyrirtækisins og verða fyrir áhrifum af starfseminni. Starfseminnar gætir um allt land og snertir alla landsmenn. Isavia hefur greint á annað hundrað hagaðila sem má flokka í viðskiptavini, starfsfólk, samfélag, stjórnvöld og birgja. Samskipti Isavia við hagaðila fara fram, með fjölbreyttum hætti, í gegnum hefðbundnar leiðir fyrirspurna og erinda, á fundum, með markaðsrannsóknum sem fyrirtækið gerir eða í gegnum fjölmörg samstarfsverkefni Isavia og hagaðila þess.

Haustið 2018 fól Isavia sænska ráðgjafafyrirtækinu Enact Sustainable Strategies að framkvæma viðtöl við hagaðila fyrirtækisins. Markmiðið var að kanna meðal helstu hagaðila fyrirtækisins hvaða málefni og viðfangsefni væru þeim mikilvægust í samfélagsábyrgð félagsins. Fyrir útgáfu ársins 2020 var byggt á grunni fyrri mikilvægisgreiningar ásamt niðurstöðum kannana meðal B2B viðskiptavina, áherslna úr samstarfsvettvangi við samfélagið á Suðurnesjum auk þess að draga saman þau helstu málefni sem aðrir hagaðilahópar Isavia hafa nálgast félagið með.

Við val á mikilvægum þáttum er horft til þeirra málefna sem hagaðilar félagsins telja sérstaklega mikilvæg í samstarfi við Isavia, væntingar hagaðila til félagins og mat þeirra á samvinnu við Isavia. Auk þessa er horft til nýjustu áherslna flugiðnaðarins í málaflokknum, þróunar og breytinga í lagaumhverfinu, helstu viðmiða í samfélagsskýrslugjöf, samanburðar við leiðandi fyrirtæki og málefna sem aðilar úr hagaðilaumhverfi félagsins hafa vakið athygli á.

Lögð er áhersla á þá þætti sem teljast mikilvægir fyrir Isavia og hagaðila félagsins í efnistökum skýrslunnar í samræmi við meginreglur skýrslugerðar, Reporting Principles GRI 101 Foundation standard.

Um samfélagsskýrslu

Markmið með útgáfu skýrslunnar er að sýna gagnsæi og gefa dýpri mynd af starfsemi félagsins og áhrifum þess á samfélagið. Með útgáfu skýrslunnar leitast félagið við varpa ljósi á bæði þær áskoranir sem félagið stendur frammi fyrir og þeim árangri sem náðst hefur. Isavia horfir til ISO 26000 í vinnu félagsins í samfélagsábyrgð.

Þær upplýsingar sem birtast í árs- og samfélagsskýrslu Isavia koma úr upplýsingakerfum félagsins og endurspegla þá þekkingu sem félagið hafði þegar skýrslan var rituð. Við ritun og upplýsingaöflun árs- og samfélagsskýrslu Isavia kemur fjöldi starfsfólks víðsvegar að úr fyrirtækinu. Með útgáfu skýrslunnar er ekki gefið í skyn að félagið þekki til fulls áhrif sín á samfélagið, né heldur að samfélagsábyrgð hafi verið að fullu innleidd hjá Isavia.
Upplýsingar í skýrslunni eiga við Isavia ohf. og dótturfélög þess sem koma fyrir í samstæðuskilum nema annað sé tekið fram. Upplýsingar í skýrslunni eiga við almanaksárið 2020.

Í samanburðartölum í kaflanum Loftslagsmál hafa tölur áranna 2018 og 2019 verið uppfærðar frá fyrri útgáfu. Annarsvegar tölur um raforkunotkun sem að hluta byggðust á áætlunum en eru nú byggðar á raunnotkun og hins vegar tölur um notkun flugvélabensíns, en upplýsingar um notkun þess urðu aðgengilegri í yfirferð með hugbúnaði Klappa. Þá hækkar kolefnislosun vegna sorps frá fyrri skýrslu. Skýringin er sú að losunarstuðull fyrir urðun sorps var endurskoðaður og því jókst kolefnislosun sem því nemur.

Óháður ráðgjafi, Viktoría Valdimarsdóttir, var fengin til að rýna GRI tilvísunartöflu skýrslunnar og tryggja gæði upplýsinga. Ársreikningur félagsins var endurskoðaður af PricewaterhouseCoopers ehf. fyrir hönd Ríkisendurskoðunar.

Við útgáfuna hefur verið horft til þess að bæta framsetningu efnis og mæta þörfum mismunandi lesendahópa. Við fögnum öllum ábendingum um efni og gerð skýrslunnar og hvetjum lesendur að senda okkur ábendingar í gegnum ábendingahnapp síðunnar, enda eru stöðugar umbætur órjúfanlegur hluti af starfsemi okkar.