Hoppa yfir valmynd

Stjórnarhættir

Uppbygging stjórnarhátta

Isavia er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um starfsemi félagsins gilda lög nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, lög nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar, lög nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu, flugvallarrekstur Flugmálastjórnar og lög um loftferðir nr. 60/1998.

Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. 

Stjórn félagsins hefur í störfum sínum Leiðbeiningar um stjórnarhætti til hliðsjónar og uppfyllir þær í öllum meginatriðum þrátt fyrir að það sé ekki skylt lögum samkvæmt. Helstu frávik eru að ekki er starfandi tilnefningarnefnd hjá félaginu þar sem tilnefning í stjórn félagsins er hjá Fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með hlut ríkisins í félaginu. Tvær undirnefndir starfa undir stjórninni sem eru starfskjaranefnd og endurskoðunar-nefnd. 

Reikningsár Isavia er almanaksárið. Ársreikninga félagsins er hægt að nálgast hjá Ársreikningaskrá sem og á heimasíðu félagsins www.isavia.is

Ekki hafa fallið dómar þar sem starfsemi félagsins er talin hafa brotið í bága við lög eða reglur.

Lög um félagið má nálgast á vef Alþingis, www.althingi.is, og samþykktir og starfsreglur á heimasíðu félagsins www.isavia.is. Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja er hægt að nálgast á heimasíðu Viðskiptaráðs Íslands, www.vi.is.

Í stjórn Isavia sitja fimm einstaklingar, og fimm til vara, kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórn er tilnefnd til stjórnarsetu af fjármála- og efnahagsráðherra. Kynjahlutfall í stjórn er 40% konur og 60% karlar. Allir sem sitja í stjórn teljast vera óháðir í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Allir hafa gefið stjórninni skýrslu um eignir sínar í öðrum félögum sem hafa ekki áhrif á störf þeirra í stjórn.

Störf og starfsreglur stjórnar

Stjórnin hefur sett sér starfsreglur þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og forstjóra eru afmörkuð. Gildandi starfsreglur voru samþykktar á stjórnarfundi 20. maí 2020. Þar er m.a. að finna ákvæði varðandi skiptingu starfa innan stjórnar, reglur um hæfi til þátttöku í afgreiðslu mála, um fundarsköp og fundargerðir, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar. Starfsreglur stjórnar eru birtar á heimasíðu félagsins.

Meginhlutverk stjórnar er að fara með málefni félagsins milli hluthafafunda, tryggja að nægilegt eftirlit sé með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins, að staðfesta rekstrar- og fjárfestingaáætlanir og sjá til þess að þeim sé fylgt. Stjórnin tekur meiriháttar ákvarðanir í rekstri félagsins og sér um að félagið sé rekið í samræmi við lög og reglur.

Þá ber stjórninni að stuðla að viðgangi félagsins og tryggja árangur þess til langs tíma litið, með því að setja félaginu stefnu í samstarfi við stjórnendur þess.

Á starfsárinu 2020 - 2021 voru haldnir 19 stjórnarfundir. Allir fundir stjórnarinnar voru ákvörðunarbærir og allir mættu á flesta fundi. Starfsáætlun stjórnar fyrir næsta starfsár liggur fyrir að aðalfundi loknum. Stjórnarformaður stýrir fundum. Auk stjórnar situr forstjóri, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri fjármála- og mannauðs stjórnarfundi. Aðstoðarforstjóri ritar fundargerðir. Að jafnaði eru fundargerðir undirritaðar af stjórn, forstjóra, og fundarritara.

Árangursmat stjórnar

Stjórn metur störf sín með reglubundnum hætti, verklag og starfshætti, framgang félagsins, frammistöðu forstjóra svo og skilvirkni undirnefnda séu þær starfandi. Slíkt árangursmat felur m.a. í sér að stjórnin leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugar að þeim hlutum sem hún telur að betur megi fara. Árangursmat stjórnar fór fram í mars 2021.

Innra eftirlit og áhættustýring

Sett hefur verið fram heildstæð áhættustefna fyrir félagið þar sem helstu áhættuþættir í rekstri hafa verið skilgreindir. Stjórn Isavia hefur samþykkt áhættustefnu félagsins. Umfang áhættustefnu nær til samstæðunnar. Samkvæmt áhættustefnu er heildstæðri áhættustýringu ætlað að tryggja að áhætta sé greind, að samræmt ferli sé fyrir hendi til að meðhöndla áhættu, að reglulega sé ferlið endurmetið, upplýsingagjöf sé regluleg og að hún lýsi áhættumati og áhættuvilja. Áhættunefnd sem í sitja forstjóri, aðstoðarforstjóri, framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs, og sérfræðingar félagsins í áhættustýringu, er með reglubundna skýrslugjöf um áhættur félagsins til stjórnar.

PricewaterhouseCoopers ehf. sér um innri endurskoðun félagsins sem m.a. leggur mat á áhættustýringu, eftirlitsaðferðir og stjórnarhætti með kerfisbundnum aðferðum og styður þannig félagið við að ná markmiðum sínum. Innri endurskoðun er ráðin af stjórn, starfar sjálfstætt og tekur ekki ákvarðanir sem tengjast daglegri starfsemi félagsins.

Framkvæmdastjórar bera ábyrgð á að draga fram, skilgreina og meta áhættu innan síns sviðs sem og að koma á viðeigandi stýringu til að lágmarka áhættu.

Siðareglur

Siðareglur Isavia gilda um alla starfsmenn og stjórnendur Isavia og eru hluti af ráðningarsamningum starfsmanna. Að auki er sérstakur kafli um vanhæfi í starfsreglum stjórnar. Þær eru öllum aðgengilegar á innri vef félagsins og á ytri vef Isavia. 

Undirnefndir

Á vegum stjórnar starfar 2 undirnefndir:

Starfskjaranefnd

Í henni sitja tveir fulltrúar úr stjórn Isavia. Helstu verkefni starfskjaranefndar er að undirbúa árlega drög að starfskjarastefnu sem lögð er fyrir aðalfund félagsins, undirbúa tillögu til aðalfundar um starfskjör stjórnar, undirbúa tillögu til stjórnar um viðmið fyrir laun og önnur starfskjör forstjóra og framkvæmdastjóra dótturfélaga. Starfskjaranefnd hefur eftirlit með því að starfskjarastefnu sé framfylgt og að laun og starfskjör séu í samræmi við lög, reglur og góðar starfsvenjur. Starfsreglur starfskjaranefndar ásamt starfskjarastefnu félagsins er að finna á heimasíðu félagsins.

Endurskoðunarnefnd

Í henni sitja þrír aðilar einn óháður félaginu og tveir fulltrúar stjórnar. Aðalhlutverk endur-skoðunarnefndar er mat á eftirlitsumhverfi félagsins, greining á virkni innri endurskoðunar, eftirlit með framkvæmd endurskoðunar, gerð tillögu um val á ytri endurskoðanda í samráð við Ríkisendurskoðun skv. 7.gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkis-reiknings, ásamt mati á óhæði endurskoðanda, mat á virkni áhættustefnu -vilja og -stýringu og tryggja fylgni við gildandi lög og reglur. Viðfangsefni nefndarinnar nær einnig til dótturfélaga Isavia. Endurskoðunarnefndin hefur eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila til að auka traust og öryggi á fjárhagslegum upplýsingum. Hlutverk og starfsreglur er að finna á heimasíðu félagsins.

Forstjóri Isavia

Forstjóri hefur með höndum daglegan rekstur félagsins skv. stefnu og fyrirmælum stjórnar. Daglegur rekstur nær ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Hann hefur ákvörðunarvald um öll rekstrar- og fjárhagsleg málefni félagsins og hefur umsjón með eignum þess. Forstjóri gerir stjórn grein fyrir starfsemi félagsins og afkomu á stjórnarfundum og ber ábyrgð gagnvart henni og að fylgt sé samþykktum félagsins, lögum og reglum.

Sveinbjörn Indriðason fæddur 1972, er hagfræðingur frá Háskóla Íslands 1998. Hann starfaði hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og vann við áhættustýringu hjá Icelandair frá 1999 til 2005. Sveinbjörn var framkvæmdastjóri fjármálasviðs FL Group frá 2005 til 2008 og rekstrar- og fjármálastjóri nýsköpunarfyrirtækisins CLARA frá árinu 2011. Sveinbjörn var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia frá árinu 2013 þar til í júní 2019 þegar hann var ráðinn forstjóri Isavia.

Fyrirkomulag samskipta hluthafa og stjórnar

Einn hluthafi, íslenska ríkið, á alla hluti félagsins og fer fjármála- og efnahagsráðherra með hlutinn. Boðun á hluthafafundi er send til tengiliðs í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hluthafafundir eru meginvettvangur fyrir upplýsingagjöf til hluthafans. Önnur samskipti við hluthafa um málefni félagsins eru í flestum tilfellum að frumkvæði félagsins. Stjórnarformaður og forstjóri hafa átt fundi með ráðherra eða starfsmönnum fjármálaráðuneytisins.

Stjórn og forstjóri félagsins fylgja almennri eigandastefnu ríkisins: Hlutafélög og sameignarfélög í störfum sínum. Félagið sendir út fréttatilkynningar sem upplýsa um afkomu félagsins og um önnur atriði í rekstrinum eftir því sem við á.

samfélagsábyrgð og siðferðisviðmið

Isavia samstæðan er með stefnu í samfélagsábyrgð og hefur stutt UN Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2016. Með því skuldbindur félagið sig til þess að stefna og starfshættir séu í samræmi við tíu meginviðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Félagið styður við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og vinnur markvisst að þeim. Í stefnu félagsins í samfélagsábyrgð er áhersla lögð á jafnvægi milli efnahags, umhverfis og samfélags með sjálfbærni að leiðarljósi.

Félagið hefur sett siðareglur fyrir birgja samstæðunnar og eru þær settar í samræmi við ofangreind tíu meginviðmið UN Global Compact. Gerð er krafa til birgja félaganna að þeir uppfylli siðareglurnar sem lágmarks viðmið og að þeir geri sömu kröfu til sinna birgja. Tilkynna ber félaginu ef grunur vaknar um að viðmiðunum sé ekki fylgt. Sé þess óskað þurfa birgjar að geta staðfest að þessum siðareglum sé fylgt. Í samningum félagsins er að finna ákvæði um bann við gerviverktöku og ráðningarsamband skal vera meginregla í samskiptum starfsfólks og verksala. Þetta er gert til þess að tryggja að öll launþegagjöld, hverju nafni sem þau nefnast, séu greidd og farið sé eftir ákvæðum kjarasamninga.

Isavia hefur að leiðarljósi að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni í lágmarki í sátt og samvinnu við hagaðila. Félagið setti sér umhverfisstefnu árið 2015 og hefur unnið ötullega að markmiðum stefnunnar með aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum. Í áætluninni eru settar fram fjölmargar aðgerðir sem eiga að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi félagsins. Aðgerðaáætlunin gildir til loka árs 2021. Unnið hefur verið að því að koma upp umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóða staðlinum ISO14001 frá árinu 2020 og lýkur þeirri vinnu fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2021. Keflavíkurflugvöllur er þátttakandi í kolefnisvottunarkerfi á vegum alþjóðasamtaka flugvalla (ACI), sem heitir Airport Carbon Accreditation (ACA).

Isavia hefur um árabil unnið markvisst að því að stuðla að jafnrétti kynjanna og hlaut fyrst jafnlaunavottun árið 2018 sem staðfest hefur verið af Jafnréttisstofu. Staða félagsins gagnvart jafnlaunavottun er tekin út árlega af utanaðkomandi úttektaraðilum, síðast í september 2020. Ekki er til staðar óútskýrður kynbundinn launamunur hjá félaginu. Þá er félagið með jafnréttisáætlun sem miðar að því að auka almenna starfsánægju og bæta starfsanda meðal starfsfólks. Tilgangur jafnréttisáætlunarinnar er að tryggja jafnræði, jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Isavia er með siðareglur sem taka til alls starfsfólks og stjórnenda félagsins sem eru hluti af ráðningarsamningum þeirra.

Félagið tryggir ákveðna vernd til handa starfsfólki sem upplýsa um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfseminni, samkvæmt lögum nr.40/2020, um vernd uppljóstrara. Starfsmaður sem býr yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi samstæðunnar ber að tilkynna slíkt. Komið hefur verið upp ferli til að auðvelda starfsfólki að koma slíkum upplýsingum á framfæri.

Isavia hefur skilaði samfélagsskýrslu sem hluta af árskýrslu félagsins frá árinu 2016. Skýrslan fylgir viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) ásamt sérákvæðum um flugvelli. Skýrslunni er skilað inn í gagnabanka GRI og til Sameinuðu þjóðanna sem árlegri framvinduskýrslu vegna skuldbindinga við UN Global.

Stjórnarháttayfirlýsing 2021

Stjórnarháttayfirlýsing er uppgjör stjórnar fyrir liðið starfsár, birt á heimasíðu Isavia ohf. Eftirfarandi stjórnarháttayfirlýsing á við um starfsemi ársins 2020 sem birt er samhliða ársreikningi fyrir það ár. Með þessari yfirlýsingu um stjórnarhætti er Isavia að fylgja Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland, m.a. með það að markmiði að styrkja innviði félagsins og auka gagnsæi.

Stjórnarháttayfirlýsing er aðgengileg á heimasíðu félagsins www.isavia.is.