Isavia leggur sig fram við að vera eftirsóknarverður og framsækinn vinnustaður. Meginmarkmið mannauðsstefnu Isavia er að stuðla að almennri starfsánægju, góðum starfsanda og framúrskarandi þjónustu. Gildin okkar þjónusta, samvinna og öryggi endurspeglast í þeim áherslum sem Isavia leggur til grundvallar í mannauðsmálum. Hjá Isavia og dótturfélögum starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks á hinum ýmsu starfsstöðvum um allt land. Í árslok 2020 var fjöldi starfsfólks hjá Isavia 968, 35% konur og 65% karlar. Meðalaldur starfsfólks er 44 ár og meðalstarfsaldur er 10 ár.
Á árinu 2020 urðu töluverðar breytingar á starfsemi Isavia og dótturfélaga. Covid-19 faraldurinn hefur orðið til þess að bregðast hefur þurft við með markvissum hætti og leita nýrra leiða til að halda starfseminni gangandi. Neyðarstjórn Isavia hefur verið að störfum samhliða faraldrinum og unnið að aðgerðum til að tryggja rekstraröryggi flugvalla, velferð starfsfólks með sóttvarnarráðstöfunum og stöðugri upplýsingagjöf. Ríkar sóttvarnarkröfur voru gerðar í starfseminni og sóttvarnarreglum yfirvalda fylgt. Grímuskylda starfsfólks var sett á farþegasvæðum og í návist farþega auk reglna um fjarlægðartakmarkanir. Þá voru vaktahópar aðskildir til að tryggja fjöldatakmarkanir og takmarka samgang á milli hópa.
Starfsfólki fækkaði töluvert en grípa þurfti til aðgerða vegna faraldursins þar sem farþegafjöldi hrundi á árinu, fækkunin átti sér aðallega stað hjá starfsfólki í framlínustörfum þar sem fjöldi farþega hefur bein áhrif á þau störf. Isavia lagði mikla áherslu á að hlúa að starfsfólki og verja störfin eins og mögulegt var, með það að leiðarljósi að vera tilbúin þegar umsvifin og farþegafjöldi myndi aukast aftur.
Stjórnendur stóðu frammi fyrir nýjum áskorunum í að stýra starfsfólki sínu í fjarvinnu, leita leiða til að halda verkefnum gangandi og hvetja fólkið sitt áfram í misjöfnum og krefjandi aðstæðum. Brugðist var við kröfu um fjarvinnu með innleiðingu á Teams til að styðja við skrifstofufólk og gera því kleift að sinna starfi sínu óbreyttu fjarri starfsstöð. Starfsfólki var boðið upp á stafrænt námskeið um helstu virkni og aðgerðir í Teams. Skrifstofustarfsfólk vann stóran hluta ársins heiman frá sér. Workplace var innleitt á árinu til að styðja við starfsemina og tengja starfsfólk betur saman í breyttum aðstæðum.