Hoppa yfir valmynd

HLJÓÐVIST

HLJÓÐMÆLINGAR

Síðustu ár hefur Isavia unnið markvisst að nokkrum mótvægisaðgerðum vegna hávaða frá flugi um Keflavíkurflugvöll. Hljóðmælingakerfi með einum færanlegum og þremur föstum hljóðmælum hefur verið í nærumhverfi Keflavíkurflugvallar síðan 2017. Með mælunum var sett upp hljóðmælingakerfi sem tengist við flughreyfingar. Þar geta íbúar, hagaðilar og Isavia fylgst með flugi og hljóðmælingum. Einnig er hægt að tilkynna um ónæði vegna einstakra flughreyfinga. 

Á síðasta ári bárust 17 tilkynningar um hávaða og ónæði vegna flugumferðar sem tengdust aðallega farþegaflugi beint yfir íbúabyggð eða herflugi.

Árið 2017 fékk Isavia verkfræðistofuna Eflu til að vinna hljóðkort fyrir flugvöllinn miðað við fjölda flughreyfinga, flugvélategundir og staðsetningu. Kortið sýnir útreiknaðan sólarhringshávaða (Lden)í kringum Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt kortlagningu Eflu verður enginn íbúi fyrir yfir 65dB sólarhringshávaða af völdum flugumferðar en um 300 sem verða fyrir 60-64 dB sólarhringshávaða og 1300 sem verða fyrir 55-59 dB sólarhringshávaða. Þetta kort má sjá á vef Umhverfisstofnunar

Á síðasta ári var aðgerðaráætlun gegn hávaða til ársins 2023 samþykkt eftir samráðsferli og kynningu. Áætlunin var gerð i samstarfi við Reykjanesbæ og Vegagerðina. 

Meðal þeirra aðgerða sem Isavia lagðist í var að innleiða nýja flugferla fyrir Keflavíkurflugvöll. Þessir flugferlar voru hannaðir með það að markmiði að lágmarka þann hávaða og ónæði sem skapast vegna flugumferðar um völlinn. Við skipulag flugumferðar er einnig miðað við að notaðar séu þær flugbrautir sem valda sem minnstu ónæði fyrir íbúa í nærbyggð Keflavíkurflugvallar. Þessu er framfylgt eftir fremsta megni að teknu tilliti til öryggis og umhverfisþátta, t.d. vinds eða brautarskilyrða.

Hljóðmælingarnar á Keflavíkurflugvelli eru í stöðugri vöktun og passað er upp á að reglum flugvallarins, um brautarnotkun og flugferla yfir íbúabyggð, sé framfylgt.

Tilkynningar vegna ónæðis vegna flughreyfinga á Reykjavíkurflugvelli voru 11 árið 2020, einkum vegna uppkeyrslu véla.

Myndirnar hér fyrir neðan sýna samanburð á flugferlum brottfara milli ára. Myndirnar eru unnar úr hljóðmælingakerfinu og sýna vel breytinguna sem hefur orðið á flugumferð yfir íbúabyggð á Reykjanesi. Töluvert minni hluti íbúabyggðar er nú undir flugumferð og verður því síður fyrir ónæði vegna hennar.  

Fólkið okkar

- samstarf lykill að árangri

Bjarni Tryggvason

Bjarni P. Tryggvason

Forstöðumaður flugturns á Keflavíkurflugvelli

Hvernig nýtast hljóðmælingarnar sem Isavia framkvæmir?
Tilkoma mælinganna gerir okkur kleift að vakta mun betur það hljóð sem berst frá flugi um Keflavíkurflugvöll. Með því móti getum við betur áttað okkur á hvaða áhrif einstaka flugferlar hafa á nærumhverfið og þá reynslu getum við nýtt okkur til að þróa heppilegustu flugferlana og 

flugaðferðirnar í samstarfi við notendur flugvallarins og nærsamfélagið. Kerfið gerir einnig þeim sem telja sig verða fyrir ónæði vegna flugumferðar kleift að senda tilkynningu vegna stakra flughreyfinga. Þeir sjá þá í kerfinu auðkenni loftfars, flughæð og flugleið og geta því sent ábendingar með mun nákvæmari hætti en áður og við vinnum með raungögn frekar en óljósar ábendingar.

Hvernig hefur verið brugðist við til þess að draga úr ónæði vegna hljóðs?
Við höfum unnið markvisst að því að innleiða aðflugs- og brottflugsferla sem miða að því að lágmarka flug yfir og nærri byggð eins og kostur er. Lykillinn að þeim árangri sem hefur verið náð felst í góðu samstarfi við nærsamfélagið og þau flugfélög sem nota flugvöllinn. Einnig hefur notkun flugbrauta verið tekin til gagngerrar endurskoðunar þannig að aðeins sé flogið yfir byggð þegar aðrir kostir eru ekki til staðar.

Við erum einnig með færanlegan mæli sem við höfum nýtt okkur til að bregðast við ábendingum. Þá mælum við hávaðann frá loftförum á viðkomandi stað og getum unnið með íbúum og mótað frekari aðgerðir ef á þarf að halda.

Hafa þær aðgerðir borið árangur?
Mælingar okkar sýna að flugferlar í kringum flugvöllinn eru mun hreinni og fyrirsjáanlegri í framhaldi af innleiðingu aðgerða. Hávaði frá loftförum er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að búa í nágrenni við flugvöll og það er hlutverk flugvallarins að reyna að milda áhrifin eins og kostur er. Mælingarnar og þær aðgerðir sem við höfum innleitt hafa skilað sér í því að skilningur notenda vallarins á aðgerðum til að draga úr áhrifum hávaða er meiri, og eins er þekking íbúa nærsamfélagsins á því hvað er eðlilegt og hvað ekki ríkari en áður að mínu mati.