Síðustu ár hefur Isavia unnið markvisst að nokkrum mótvægisaðgerðum vegna hávaða frá flugi um Keflavíkurflugvöll. Hljóðmælingakerfi með einum færanlegum og þremur föstum hljóðmælum hefur verið í nærumhverfi Keflavíkurflugvallar síðan 2017. Með mælunum var sett upp hljóðmælingakerfi sem tengist við flughreyfingar. Þar geta íbúar, hagaðilar og Isavia fylgst með flugi og hljóðmælingum. Einnig er hægt að tilkynna um ónæði vegna einstakra flughreyfinga.
Á síðasta ári bárust 17 tilkynningar um hávaða og ónæði vegna flugumferðar sem tengdust aðallega farþegaflugi beint yfir íbúabyggð eða herflugi.
Árið 2017 fékk Isavia verkfræðistofuna Eflu til að vinna hljóðkort fyrir flugvöllinn miðað við fjölda flughreyfinga, flugvélategundir og staðsetningu. Kortið sýnir útreiknaðan sólarhringshávaða (Lden)í kringum Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt kortlagningu Eflu verður enginn íbúi fyrir yfir 65dB sólarhringshávaða af völdum flugumferðar en um 300 sem verða fyrir 60-64 dB sólarhringshávaða og 1300 sem verða fyrir 55-59 dB sólarhringshávaða. Þetta kort má sjá á vef Umhverfisstofnunar
Á síðasta ári var aðgerðaráætlun gegn hávaða til ársins 2023 samþykkt eftir samráðsferli og kynningu. Áætlunin var gerð i samstarfi við Reykjanesbæ og Vegagerðina.
Meðal þeirra aðgerða sem Isavia lagðist í var að innleiða nýja flugferla fyrir Keflavíkurflugvöll. Þessir flugferlar voru hannaðir með það að markmiði að lágmarka þann hávaða og ónæði sem skapast vegna flugumferðar um völlinn. Við skipulag flugumferðar er einnig miðað við að notaðar séu þær flugbrautir sem valda sem minnstu ónæði fyrir íbúa í nærbyggð Keflavíkurflugvallar. Þessu er framfylgt eftir fremsta megni að teknu tilliti til öryggis og umhverfisþátta, t.d. vinds eða brautarskilyrða.
Hljóðmælingarnar á Keflavíkurflugvelli eru í stöðugri vöktun og passað er upp á að reglum flugvallarins, um brautarnotkun og flugferla yfir íbúabyggð, sé framfylgt.
Tilkynningar vegna ónæðis vegna flughreyfinga á Reykjavíkurflugvelli voru 11 árið 2020, einkum vegna uppkeyrslu véla.
Myndirnar hér fyrir neðan sýna samanburð á flugferlum brottfara milli ára. Myndirnar eru unnar úr hljóðmælingakerfinu og sýna vel breytinguna sem hefur orðið á flugumferð yfir íbúabyggð á Reykjanesi. Töluvert minni hluti íbúabyggðar er nú undir flugumferð og verður því síður fyrir ónæði vegna hennar.