Bein orkunotkun
Eldsneytisnotkun er veigamesti umhverfisþátturinn í annars frekar orkufrekri starfsemi Isavia. Vel er fylgst með eldsneytisnotkun í starfseminni og unnið að því að draga úr þar sem hægt er. Á síðasta ári hófst prófun á íblöndun repjuolíu á tæki á Keflavíkurflugvelli og standa vonir til að hægt verði að auka íblöndun á næstu misserum.
Langstærsti hluti eldsneytisnotkunar er vegna þjónustu og viðhalds á brautum og athafnasvæðum flugvallanna. Þó umfang hennar tengist að einhverju leyti farþegafjölda, þá er hún að mestu háð veðri og því geta orðið sveiflur, einkum þegar sinna þarf vetrarþjónustu í marga daga á ári. Veturinn 2019-2020 var vetrarþjónusta veitt á Keflavíkurflugvelli í 141 dag. Við snjóhreinsun voru unnar 5460 vélastundir
Isavia hefur unnið eftir aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum sem gildir út árið 2021. Þar eru settar fram ýmsar aðgerðir sem eiga að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi Isavia. Aðgerðirnar snúa meðal annars að endurnýjun bíla- og tækjaflota, skynsamlegri nýtingu auðlinda, aukinni rafvæðingu og kolefnisjöfnun. Nú þegar er hafin vinna við endurskoðun þessarar aðgerðaáætlunar og mótun nýrrar sjálfbærnistefnu.
Eldsneytisnotkun Isavia dróst lítillega saman frá því á síðasta ári, þegar horft er til heildareldsneytisnotkunar en þegar skoðuð er notkun á hvern farþega jókst hún töluvert milli ára. Skýringin liggur í mikilli fækkun farþega á Keflavíkurflugvelli vegna Covid-19 faraldursins. Þá kom bersýnilega í ljós að eldsneytisnotkun Isavia tengist farþegafjölda lítið, eins og sagt var frá hér að ofan. Markmið Isavia fyrir árið 2020 var að draga úr notkun eldsneytis á hvern farþega um 4% og var því markmiði því ekki náð.
Bein orkunotkun GRI 302-1 og minnkun á orkunotkun GRI 302-4
Tegund | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019* | 2020 | 2020 kWh |
---|---|---|---|---|---|---|---|
Bensín | 45.665 l | 47.131 l | 40.769 l | 39.964 l | 37.400 l | 26.962 l | 7.777.867 |
Dísil | 751.722 l | 714.574 l | 819.696 l | 893.326 l | 853.682l | 759.292 l | 246.702 |
Flugbensín | x | x | 62.468 l | 77.520 l | 78.131 l | 66.676 l | 682.390 |
Á hvern farþega | 0,148 l | 0,106 l | 0,096 l | 0,095 l | 0,114 l | 0,501 l |