Markmið fyrir árið 2020 voru sett í kringum áramótin 2019 og 2020 áður en Covid 19 hafði áhrif á starfsemi Isavia af fullum krafti. Áherslur á vinnu úrbótaverkefna til að ná markmiðum breyttust að einhverju leyti vegna aðstæðna og ekki náðist að ljúka öllum verkefnum innan ársins en unnið verður áfram að þeim. Þá var einnig ákveðið að breyta vinnuferli við markmiðasetninguna fyrir árið 2021.
Markmið ársins 2020 og árangur
Isavia setti níu markmið, til lengri og styttri tíma, í samfélagsábyrgð fyrir árið 2020. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum var horft til eðlis fyrirtækisins og stefnu, ábendinga ytri hagaðila, Heimsmarkmiðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum. Um leið var horft til úrbótatækifæra út frá GRI þáttunum, skuldbindingum félagsins við viðmið UN Global Compact og hvatningaverkefni sem félagið er aðili að. Auk þess sem ACI, alþjóðasamtök flugvalla hafa gefið út leiðbeiningar um sjálfbærnivegferð fyrir flugvelli. Félagið horfði einnig til áhersluþátta í þeirra vinnu.
Markmið ársins 2020 tengdust níu af Heimsmarkmiðunum sautján. Vinnan fór þannig fram að teymi fulltrúa starfsfólks frá öllum sviðum fyrirtækisins komu með tillögur inn í markmiðssetninguna út frá starfsemi sinna sviða. Tillögur teymisins voru lagðar fyrir forstjóra og framkvæmdastjórn til samþykktar og fyrir stjórn til kynningar.