Hoppa yfir valmynd

Markmið og úrbætur

Markmið fyrir árið 2020 voru sett í kringum áramótin 2019 og 2020 áður en Covid 19 hafði áhrif á starfsemi Isavia af fullum krafti. Áherslur á vinnu úrbótaverkefna til að ná markmiðum breyttust að einhverju leyti vegna aðstæðna og ekki náðist að ljúka öllum verkefnum innan ársins en unnið verður áfram að þeim. Þá var einnig ákveðið að breyta vinnuferli við markmiðasetninguna fyrir árið 2021.

Markmið ársins 2020 og árangur

Isavia setti níu markmið, til lengri og styttri tíma, í samfélagsábyrgð fyrir árið 2020. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum var horft til eðlis fyrirtækisins og stefnu, ábendinga ytri hagaðila, Heimsmarkmiðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum. Um leið var horft til úrbótatækifæra út frá GRI þáttunum, skuldbindingum félagsins við viðmið UN Global Compact og hvatningaverkefni sem félagið er aðili að. Auk þess sem ACI, alþjóðasamtök flugvalla hafa gefið út leiðbeiningar um sjálfbærnivegferð fyrir flugvelli. Félagið horfði einnig til áhersluþátta í þeirra vinnu.

Markmið ársins 2020 tengdust níu af Heimsmarkmiðunum sautján. Vinnan fór þannig fram að teymi fulltrúa starfsfólks frá öllum sviðum fyrirtækisins komu með tillögur inn í markmiðssetninguna út frá starfsemi sinna sviða. Tillögur teymisins voru lagðar fyrir forstjóra og framkvæmdastjórn til samþykktar og fyrir stjórn til kynningar.

Markmið ársins 2021

Á seinni hluta ársins 2019 var skipulagi félagsins breytt þegar flugleiðsöguþjónusta og rekstur innanlandsflugvalla, sem höfðu áður verið svið innan Isavia, voru gerð að dótturfélögum. Þetta er í fyrsta skipti sem markmið félagsins endurspegla þá breytingu að fullu.

Markmiðin fyrir árið 2021 voru eingöngu sett fyrir móðurfélagið en ekki samstæðuna eins og verið hefur. Með því fær starfsemin á Keflavíkurflugvelli óskipta athygli hjá móðurfélaginu og þær stefnuáherslur sem þar eru tengdar betur við vinnuna. Það er lögð áhersla á markmið og aðgerðir til að koma félaginu á þann stað að vera sjálfbært aftur eftir þá erfiðu tíma sem fylgt hafa rekstri í Covid.

Eftir sem áður er horft til þeirra áhersluþátta sem hafðir hafa verið til hliðsjónar hingað til við markmiðavinnu hjá félaginu og fram koma hér að ofan. Framkvæmdastjórn og einstaka forstöðumenn settu markmiðin og aðgerðir þeim tengdum í ár. Þau voru kynnt stjórn, forstöðumönnum og deildarstjórum í kjölfarið og eru þegar komin í vinnslu.

Markmiðin eru alls sjö undir fimm stefnumiðum félagsins sem eru mannauður, þjónusta, tækni og ferlar, arðsemi og samfélagsleg ábyrgð. Eitt markmið var sett fyrir hvert stefnumið fyrir utan mannauð og þjónustu þar sem þau eru tvö fyrir hvorn þátt. Aðgerðir og úrbótaverkefni eru alls 42.

Markmiðin falla undir eftirfarandi þætti samkvæmt mikilvægisgreiningu innri og ytri hagaðila: Mannauð, verðmæta og skilvirka þjónustu, stafræna tækni- og sjálfvirkni, fjárhagslega sjálfbæran rekstur og kolefnisspor og loftgæði.

Markmiðin í ár falla undir Heimsmarkmið 5, 7, 8, 9, 11, 12, 13, 17

Eftirsóttur og framsækinn vinnustaður

Það voru sett markmið og aðgerðir um starfsánægju og þjálfun stjórnenda. Lykilárangursþættir eru reglulegar starfsánægjukannanir með skipulagðri, sýnilegri eftirfylgni. Starfsfólk tengi sig við hlutverk og markmið Isavia og lifi gildi fyrirtækisins. Áhersla er á líðan starfsfólks og það sé rétt fólk með rétta hæfni í hverri stöðu til framtíðar. Stjórnendur hafi upplýsingar, tól og tæki til að taka ákvarðanir, gert verði reglulegt stjórnendamat, veitt regluleg endurgjöf, áhersla er á fjölbreytni í stjórnendahópi og fræðslu fyrir stjórnendur.

Verðmæt og skilvirk þjónusta

Undir þessum þætti voru sett markmið um ánægju viðskiptavina og aukningu á óflugtengdum tekjum. Lykilárangursþættir eru að þekkja viðskiptavini vel, setja skýr þjónustuviðmið, leggja áherslu á stundvísi brottfara, gera góðar þjónustugreiningar, leggja áherslu á stafrænar dreifileiðir, skilvirka markaðssetningu og stuðning við rekstraraðila svo eitthvað sé nefnt.

Stafræn tækni og sjálfvirkni

Það var sett markmið um innleiðingu á gagnadrifinni ákvarðanatöku. Lykilárangursþættir eru skýr stefna um stafræna vegferð sem er í vinnslu, styrking vöruhúss gagna, mælaborð stjórnenda, opið og gott upplýsingaflæði og áhersla á gott aðgengi að gögnum innan félagsins.

Fjárhagslega sjálfbær rekstur

Undir þessum þætti var sett markmið um arðsemi eigin fjár til næstu ára. Lykilárangursþættir eru aukning á óflugtengdum tekjum, lækkun flugtengds rekstrarkostnaðar, minnkun á sóun og bætt umgengni um auðlindir.

Kolefnisspor og loftgæði

Markmið um minnkun kolefnisspors var upphaflega sett árið 2015 og gildir til 2030. Það er samstæðumarkmið en starfsemin á Keflavíkurflugvelli vegur þyngst. Í ljósi breytinga á skipulagi félagsins og öðrum breytingum á rekstrarumhverfi þess er meginverkefni þessa árs að setja heildræna sjálfbærnistefnu fyrir Isavia ohf. og dótturfélög. Markmið félagsins í málaflokknum verða endurskoðuð með tilliti til skuldbindinga félagsins og aðgerðaáætlun sem gildir til loka 2021 uppfærð og gerð til lengri tíma. Lykilárangursþættir eru þátttaka starfsfólks, samstarf við hagaðila á Keflavíkurflugvelli og nærsamfélagið.

Fólkið okkar

- Sjálfbærni hjá Isavia

Hrönn Ingólfsdóttir

Hrönn Ingólfsdóttir

Forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni

Af hverju sjálfbærnistefna? 
Við höfum verið með umhverfisstefnu og stefnu um samfélagsábyrgð í nokkur ár. Nú finnst okkur tímabært að uppfæra þær í samræmi við allar þær nýju áherslur sem hafa orðið til í mála-flokknum og þær skuldbindingar sem félagið hefur tekist á hendur síðan þær voru settar. Flugvellir hafa mjög stórt áhrifasvæði og snerta alla þrjá þætti sjálfbærni, efnahagslega, 

samfélagslega og umhverfislega bæði á neikvæðan hátt, en ekki síst á jákvæðan t.d. með atvinnusköpun og auknum hagvexti fyrir þjóðfélagið. Við viljum að þessar áherslur endurspeglist betur í stefnu okkar, markmiðum og aðgerðum í átt að sjálfbærni.

Hverjar eru helstu áskoranir í sjálfbærnivinnunni?
Við erum í samkeppni við aðra flugvelli og búin að skuldbinda okkur með öðrum flugvöllum í Evrópu um að vera kolefnislaus í síðasta lagi 2050. Þetta gerist ekki að sjálfu sér. Við verðum að ákveða hvernig við ætlum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar með skýrum markmiðum og aðgerðum svo við náum því innan tímamarka - þó að 2050 virðist langt í burtu. Starfsemi okkar er viðamikil og snertir mjög marga þætti. Það verður áskorun að forgangsraða aðgerðum. Okkur langar að gera svo margt en við verðum að vera raunsæ og búta fílinn niður í viðráðanlega bita.

Hvernig tengjast heimsmarkmiðin sjálfbærnistefnu?
Heimsmarkmiðin eru markmið heimsins í átt að sjálfbærni. Þau eru því mikilvægur þáttur í okkar ytra umhverfi sem við verðum að taka tillit til í okkar stefnuvinnu enda erum við öll hluti af sama heimi. Við búum þó svo vel að alþjóðasamtök flugvalla í Evrópu hafa gefið út tillögur að aðgerðum sem flugvellir ættu að leggja áherslu á og hafa tengt þær heimsmarkmiðunum. Við nýtum okkur þessar tillögur í okkar vinnu enda erum við eina fyrirtækið sinnar tegundar hér á landi og því mikilvægt fyrir okkur að horfa til annarra flugvalla erlendis um bestu vinnubrögð í okkar iðnaði. Við stöndum okkur vel á ýmsum sviðum í samanburði við aðra en megum gera betur á öðrum. Við vinnum að stöðugum úrbótum og ætlum að komast í fremstu röð meðal jafningja.