
38.000 farþegar í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll
Tæplega 38.000 farþegar fóru í millilandaflug um Akureyrarflugvöll í fyrra og voru Íslendingar rúmlega helmingur þeirra. Í frétt á Rúv.is er haft eftir Hjalta Páli Þórarinssyni, framkvæmdastjóra flugklasans Air 66N, að aukið sætaframboð sé fyrir árið 2025 og bókanir í leiguflugið lofi einnig góðu. „Þannig að við erum að sjá fleiri ferðamenn koma. Þannig að það eru bara mjög jákvæð teikn á lofti. Sem er auðvitað bara fagnarðarefni og í rauninni í takt við þær væntingar sem við höfðum.“
Þá er sagt frá því að Easy Jet flýgur tvisvar í viku til Akureyrar frá London og Manchester á Englandi og tvær ferðaskrifstofur bjóða upp á vikulegt leiguflug til Hollands og Sviss.
Um þá ákvörðun Easy Jet að bæta við flugi segir Hjalti Páll: „Nýtingin var mjög góð í þessu flugi, sérstaklega hjá Easy Jet sem var að byrja sinn fyrsta vetur núna síðast. Mjög góð nýting sem varð auðvitað til þess að þeir ákváðu að bæta í núna í vetur,“
Millilandaflug á Akureyrarflugvelli gefur heilmikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi sem nú er hægt að starfrækja með skipulegri hætti allt árið um kring.
Fréttina má lesa í heild sinni á vef ruv.is