Númeraplötuvöktun á bílastæðum Isavia Innanlandsflugvalla
Tekin er ljósmynd af númeraplötu bíls þegar þú keyrir inn og út af bílastæði. Bílnúmer eru skráð og tímasetning inn- og útkeyrslu.
Hægt er að greiða í gegnum Autopay app í allt að 24 tímum eftir að keyrt er út af stæði. Sé ekki greitt fyrir stæðið fyrir þann tíma er kennitölu eiganda bílsins flett upp og sendur á hann reikningur beint í heimabanka.
Af hverju er gögnum safnað og á grunni hvaða heimildar?
Gögnum er safnað í þeim tilgangi að innheimta gjald vegna notkunar á bílastæðum. Vinnslan er nauðsynleg til þess að uppfylla samning, þ.e.a.s. veita þjónustuna og innheimta gjald fyrir.
Hversu lengi eru upplýsingar geymdar?
Ljósmyndir af bílnúmeraplötum eru geymdar í 90 daga eftir að ekið er af bílastæðinu.
Deilum við upplýsingunum þínum með öðrum?
Upplýsingunum er deilt með Isavia ohf., sem sér um rekstur kerfisins og Autopay Technologies sem eru vinnsluaðilar okkar. Upplýsingum er jafnframt deilt með þeim aðilum sem þú velur að nota til að greiða fyrir bílastæðið, þ.e.a.s. Autopay Technologies eða Parka.
Hvar eru upplýsingar geymdar?
Upplýsingarnar eru geymdar á vefþjónum sem staðsettir eru innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Upplýsingar varðandi aðra myndavélanotkun Isavia Innanlandsflugvalla
Isavia Innanlandsflugvellir er ábyrgðaraðili rafrænnar vöktunar sem viðhefst með eftirlitsmyndavélum hjá innanlandsflugvöllum.
Megintilgangur rafrænnar vöktunar er öryggi, eignavarsla og flugvernd. Myndefni sem til verður kann þó einnig að vera nýtt til að hafa eftirlit með nýtingu mannvirkja og vegna þróunar og breytinga á þeim. Þá kann myndefni einnig að vera nýtt við þjálfun starfsfólks. Þegar myndefni er nýtt til annars en öryggis, eignavörslu og flugverndar er leitast við að einstaklingar séu ekki persónugreinanlegir. Heimild til vinnslu persónuupplýsinga sem til verða við rafræna vöktun er lagaskylda sem hvílir á okkur, m.a. vegna flugverndar og hins vegar vegna lögmætra hagsmuna Isavia Innanlandsflugvalla af því að viðhafa öryggis- og eignavörslu, stuðla að þróun flugvallanna, bæta þjónustu og vegna þjálfunar starfsfólks.
Myndefni er aðgengilegt þröngum hópi starfsfólks. Vinnsluaðili kann að fá takmarkaðan aðgang vegna villugreininga og uppfærslna (Dallmeier) og vegna aðstoðar við rekstur (Isavia ohf.). Efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað getur verið afhent lögreglu. Einnig getur efni verið afhent tryggingafélagi sé það nauðsynlegt vegna tryggingamáls.
Þegar unnið er með myndefni sem verður til við vöktunina má sjá í sumum tilvikum einstaklinga sem farið hafa um hið vaktaða svæði og athafnir þeirra.
Einstaklingur getur átt rétt á að skoða myndefni þar sem hægt er að bera kennsl á viðkomandi. Einnig á sá aðili rétt á að fá afrit af slíku myndefni að því gefnu að það skerði ekki réttindi og frelsi annarra.
Efnið er varðveitt í 30 daga nema í afmörkuðum tilvikum þegar lög heimila lengri varðveislutíma.
Bent er á að aðrir rekstraraðilar á flugvöllum innanlands kunna einnig að viðhafa rafræna vöktun í sinni starfsemi. Rafræn vöktun þeirra er ekki á ábyrgð Isavia Innanlandsflugvalla.