Hoppa yfir valmynd
2.6.2022
Jómfrúarflug Niceair frá Akureyri til Kaupmannahafnar

Jómfrúarflug Niceair frá Akureyri til Kaupmannahafnar

Súlur, ný þota flugfélagsins Niceair, fór í sína fyrstu ferð frá Akureyrarflugvelli í dag. Flogið var til Kaupmannahafnar. Flogið var af stað skömmu fyrir klukkan átta í morgun og lent aftur á Akureyrarflugvelli um klukkan fjögur síðdegis.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Niceair, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, klipptu á borða að því tilefni í flugstöðinni á Akureyri þar sem jómfrúarferð flugfélagsins var fagnað.

Í ávarpi sínu sagði bæjarstjóri að þetta væri stór dagur í sögu Akureyrar þegar fyrsta flugfélagið með heimavöll á Akureyrarflugvelli tæki á loft á nýjan áfangastað. Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, tók í sama streng og sagði að þetta væri mikilvægur áfangi í samgöngum og samskiptum á Íslandi.

„Hér er verið að stíga stór skref sem skipta máli,“ sagði Sigrún Björk. „Markmið stjórnvalda eru að opna og tryggja nýja gátt inn í landið og með þeirri uppbyggingu sem nú er hafin á Akureyrarflugvelli er verið að renna styrkari stoðum undir þau markmið.“

Sigrún Björk bætti við að fram undan væru framkvæmdir á Akureyrarflugvelli. Vaxandi áhugi væri á því meðal erlendra flugfélaga að nýta sér aðstöðuna á vellinum og sá áhugi hefði síst minnkað með tilkomu Niceair.