Airbus vél Icelandair lendir á Akureyri og Egilsstöðum
Ný Airbus flugvél Icelandair lenti á Keflavíkurflugvelli 6. desember. Véllin fór í þjálfunarflug yfir landið þar sem hún lenti fyrst á Akureyrarflugvelli en síðan lá leiðin til Egilsstaða. Vélinni var svo flogið aftur til Keflavíkur þaðan sem fyrsta farþegaflugið var farið til Stokkhólms.
Flugvélin, sem hefur fengið nafnið Esja, er af gerðinni A321LR og er fyrsta Airbus flugvél í 87 ára sögu Icelandair og er von á þremur vélum sömu tegundar til viðbótar fyrir sumarið 2025.
Airbus flugvélarnar munu taka við af Boeing 757 vélunum sem hafa verið burðarásinn í flota Icelandair um áratugaskeið. Í vélunum eru 187 sæti, 22 á Saga Premium og 165 á almennu farrými. Vélarnar eru búnar Pratt & Whitney GTF™ hreyflum. Þær eru af nýrri kynslóð sparneytinna flugvéla og munu þannig styðja við sjálfbærnivegferð félagsins en gert er ráð fyrir að þær séu allt að 30% sparneytnari en þær vélar sem þær taka við af og mun hljóðlátari. Flugdrægi vélanna er 4.000 sjómílur eða 7.400 kílómetrar og munu þær því geta sinnt öllum áfangstöðum sem Boeing 757 vélar Icelandair hafa sinnt hingað til. Í framtíðinni mun félagið taka við enn langdrægari flugvélum, A321XLR, í takt við samning frá júlí 2023 um kaup á allt að 25 flugvélum.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sagði um komu vélarinnar:
„Dagurinn í dag markar mikil tímamót í sögu Icelandair. Með tilkomu Airbus flugvéla í flotann okkar munu skapast mikil tækifæri á næstu árum, ekki bara fyrir Icelandair heldur einnig fyrir Ísland sem ferðamannaland og tengimiðstöð í flugi milli Evrópu, Norður-Ameríku og jafnvel enn lengra. Við bindum miklar vonir við þessar öflugu, langdrægu og sparneytnu vélar og hlökkum til að bjóða farþega okkar velkomna um borð.“