Hoppa yfir valmynd
31.1.2025
Ráðherra innviða í heimsókn á Reykjavíkurflugvelli

Ráðherra innviða í heimsókn á Reykjavíkurflugvelli

Eyjólfur Ármannsson nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kom í heimsókn á Reykjavíkurflugvöll  þar sem Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla tók á móti honum. Kynnti hún starfsemi fyrirtækisins sem nær allt frá almennri flugvallarþjónustu, flugumferðarþjónustu, flugvernd og umsjón með verklegum framkvæmdum auk öryggis- og gæðamála. 

Isavia Innanlandsflugvellir ehf. sér um rekstur íslenskra áætlunarflugvalla, annarra en Keflavíkurflugvallar, en stærstu vellirnir sem jafnframt eru alþjóðaflugvellir eru í Reykjavík á Akureyri og Egilsstöðum. Auk þess eru níu flugvellir með reglubundið áætlunarflug og 30 lendingastaðir.  

Sigrún Björk lagði í kynningu sinni áherslu á að með öflugum rekstri flugvalla er lagður grunnur að bættum lífsgæðum um landið allt. Fór hún yfir stefnuáherslur til ársins 2027 sem eru traustur rekstur, sýnileiki, orkuskipti og sjálfbærni, samskipti og samstarf.  

Farþegatölur ársins voru kynntar en farþegafjöldi um innanlandsflugvellina voru tæp 700 þúsund sem er álíka fjöldi og árin tvö þar á undan.  

Aukning hefur verið í fjölda farþega um Akureyrarflugvöll, sem er eini völlurinn sem sýnir hækkandi tölur milli ára, en hlutfall millilandaflugsfarþega þar er um 17% 

Þá fór Sigrún Björk yfir mikilvæga stækkun flugstöðvar og flughlaðs við Akureyrarflugvöll sem opnað var á árinu og bætir við öll tækifæri vallarins til að taka á móti fleiri vélum og farþegum.  

Sigrún Björk sagði einnig frá komandi verkefnum á Egilsstöðum en þar er verið að undirbúa samsíða akbraut sem kemur til með að auka afkastagetu flugvallarins og styrkja sem varaflugvöll skapist neyð á Keflavíkurflugvelli.  

„NEA  orkuskipti í flugi“ er eitt af þeim verkefnum sem unnið er að og er mikilvægur þáttur í þróun sjálfbærra lausna í loftslagsmálum. Var ráðherra kynnt sú greiningarvinna sem í gangi er með Icelandair og þróunarverkefni í samstarfi þeirra og Isavia. Áhersla þar er á þróun innviða, samræmingu á regluverki og stöðlum, hagkvæmni og mikilvægi opinbers stuðnings. Verkefnið hefur verið til umræðu á vettvangi norrænna samgönguráðherra og mun ráðherra fylgjast með málinu áfram þar.  

Verkefnalisti Innanlandsflugvalla er fjölbreyttur og var ráðherra sýnd verkefnisáætlun Innanlandsflugvalla sem felur meðal annars í sér almennt viðhald s.s. malbik og ljósabúnað á flugbrautum, hljóðmælingakerfi, ný heiti á flugbrautum og stækkanir flughlaða, vinnu við aðflugsferla og endurnýjun tækjabúnaðar. Miklar umræður sköpuðust um framtíð í flugradíóþjónustu og ráðherra fól Innanlandsflugvöllum að setja niður stefnu í þeim efnum og kynna fyrir ráðuneytinu. 

Á fundinum var jafnframt rætt um áhrif umhverfis á starfsemi flugvalla. Til að mynda hvernig byggingaframkvæmdir í nýja Skerjafirði munu hafa áhrif á aðstæður á flugbrautum  og kostnað við tilfærslur girðinga á þessu svæði. Einnig voru skoðaðir hindranafletir við flugbraut og hvernig trjágróður í Öskjuhlíð hefur áhrif á aðflug og flugtak eins og staðan er í dag og hvað þarf að leysa til að hægt sé að tryggja öryggi við brautina.  

Gagnlegar og góðar umræður voru á fundinum um flugmál og ánægjulegt var að sjá áhuga ráðherra á málaflokknum.