
Flugslysaæfing í Vestmannaeyjum
Á dögunum var haldin allsherjaræfing á flugvellinum í Vestmannaeyjum. Tilgangur slíkra æfinga er að æfa viðbragð og fara yfir að allar áætlanir séu fullnægjandi til að takast á við mismunandi tegundir neyðartilvika. Æfingar eru reglulega á flugvöllum en allsherjaræfingar, þar sem ólíkir aðilar koma að, eru haldnar á fjögurra ára fresti og þá ýmist að vori eða hausti til að þjálfa betur eftir ólíkum aðstæðum.
Mikilvægt er að starfsfólk hljóti þjálfun á sviði neyðarviðbúnaðar, til samræmis við verkefni þsss þar að lútandi en einnig hlutaðeigandi aðilar sem sinna störfum bæði innan og utan flugvallar, sem þurfa að þekkja neyðaráætlun rækilega og þróa verklag sitt í samræmi við hana.
Það eru því margir sem koma að slíkum æfingum, undirbúningi, skipulagi og til þess að rýna framkvæmdina. Vestmannaeyjar skörtuðu sínu fallega umhverfi, æfingin gekk vel og Isavia Innanlandsflugvellir þakka fyrir góðan dag með góðu fólki.