Ný flugstöð og flughlað vígð á Akureyrarflugvelli
Ný flugstöð og nýtt flughlað voru vígð við hátíðlega athöfn og formlega tekin í notkun á 70 ára afmæli Akureyrarflugvallar, 5. desember. Fjölmenni var á vellinum þar sem áfanganum var fagnað með starfsfólki, verktökum og ráðamönnum.
Ný og endurbætt flugstöð var unnin í þremur áföngum. Í þeim fyrsta var nýrri viðbyggingu upp á 1.100 fermetra bætt við þar sem er aðstaða fyrir lögreglu, toll, fríhafnarverslun og veitingastað. Í öðrum áfanga verksins var núverandi komusvæði flugstöðvarinnar endurbyggt en þar er nýtt innritunarsvæði. Í þriðja áfanga voru núverandi innritunarsvæði og skrifstofuhluti flugstöðvarbyggingarinnar endurbyggð.
Nýja flughlaðið er 33 þúsund fermetrar að stærð og með skilgreind tvö þotusvæði. Allt í allt er hægt að taka á móti 12 til 14 flugvélum á Akureyrarflugvelli í stað 4 til 5 véla.
„Það er ekki tilviljun að þessi dagur varð fyrir valinu til að taka þessa nýju viðbót í notkun,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Fyrir sjö áratugum síðan upp á dag var Akureyrarflugvöllur vígður við hátíðlega athöfn og dagurinn því táknrænn í sögu vallarins.“
Sigrún segir að ný flugstöð og nýtt flughlað muni gagnast mikið í þeirri sterku þróun sem orðið hafi í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. „Þessi bygging mun geta annað hálfri milljón farþega en farþegar um Akureyrarflugvöll eru um 200 þúsund árlega. Þar af eru millilandafarþegar um 16% og hér er vöxtur í okkar rekstri. Hér eru tækifærin í auknu flugi og hér er sóknarhugurinn.“
Fjölmargir gestir voru við athöfnina. Þar voru fulltrúar framkvæmdaaðila og einnig Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem tók fyrstu skóflustungu að viðbyggingunni sumarið 2021, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði að hið nýja og glæsilega mannvirki á Akureyrarflugvelli, flughlað og stækkuð flugstöð, væru mikið framfaraspor fyrir flugsamgöngur á Norðurlandi. „Þau styrkja mikilvægt hlutverk Akureyrarflugvallar fyrir svæðið í kring og landið allt, fyrir tengingar innanlands, sem gátt inn í landið og sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Öflugur flugvöllur á Akureyri færir Norðurlandi mikinn ábata og ávinning þegar í stað og styður við þá stefnu að dreifa ferðafólk um allt land. Mannvirkin munu standa sem skýrt merki um sýnilegan árangur síðustu ára,“ sagði ráðherra.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sagði að gengið hefði verið í framkvæmdina af einurð eins og vanalegt væri á Íslandi. Hún sagði að nýja flugstöðin og flughlaðið væru byggðamál með auknum lífsgæðum fyrir íbúa sem gætu ferðast með auðveldari hætti til útlanda. Þá væru mannvirkin atvinnumál þar sem þau styðji við ferðaþjónustu allt árið og öryggismál því fleiri gáttir væru opnar inn í landið.
Við vígslu flugstöðvarinnar og flughlaðsins ítrekaði Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, þakkir til allra sem hefðu komið að framkvæmdunum á síðustu árum. Hún afhenti síðan Hjördísi Þórhallsdóttur, flugvallarstjóra á Akureyrarflugvelli innrammað aðgangskort að stækkaðri flugstöð. Þá fékk Sigrún að lokum að láni orð Ingólfs Jónssonar samgönguráðherra sem sagði við vígsluna á flugstöðinni þann 5. desember 1954: „Ég óska þess að hulinn verndarkraftur muni jafnan fylgja þessum bletti svo að allir megi örugglega hingað komast og héðan fara.“