Hoppa yfir valmynd
9.9.2024
Tæpur fimmtungur farþega Akureyrarflugvallar í millilandaflugi

Tæpur fimmtungur farþega Akureyrarflugvallar í millilandaflugi

Töluverð aukning hefur orðið í ár á fjölda farþega í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Fyrstu átta mánuði ársins hafa ríflega 17% farþega um völlinn verið tilheyrt þeim hópi.  Þar munar mestu um EasyJet og Transavia farþega. EasyJet hefur boðið uppá flug milli Akureyrarflugvallar og London Gatwick flugvallar yfir vetrarmánuðina og Transavia bæði í sumar og vetur.

Næsta vetur mun Easy Jet bæta Manchesterborg við sem áfangastað   frá  Akureyri þannig að þess má vænta að hlutfall millilandafarþega aukist enn frekar.  Jafnframt mun ferðaskrifstofan Kontiki bjóða uppá flug til Zürich á sunnudögum í vetur  og Transavia verður með flug til Amsterdam tvisvar í viku.

Laugardagar og þriðjudagar eru annasömustu dagarnir á flugvellinum þar sem að bæði er flogið til Englands og Hollands á þeim dögum. Jafnframt eru fyrirhugaðar tvær ferðir frá Færeyjum í febrúar og mars 2025.

Á Egilsstöðum hafa tilfallandi leiguflug verið í boði í millilandaflugi. Komandi vetur verður m.a. flogið til Aberdeen í Skotlandi,  Marrakesh í Marokkó, Kraká og Veróna.  Hlutfall millilandafarþega á Egilisstaðaflugvelli hefur verið undir þremur prósentum líkt og á Reykjavíkurflugvelli, en í Reykjavík munar mestu um að áætlunarflug til Grænlands hefur að mestu verið flutt til Keflavíkurflugvallar. Þó er þar undanskilið flugið til Constable Point á austurströnd Grænlands sem áfram fer um Reykjavíkurflugvöll

 

Sjá nánar um Holland  á www.voigt-travel.nl og Verdi Travel á Akureyri.

Sjá nánar um Bretland  www.easyjet.co.ukSjá nánar um Sviss frá Zurich: Kontiki Travel
Sjá nánar um Sviss frá Akureyri: Verdi Travel

Frekari upplýsingar um Færeyjaflug  tur.fo

 

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að fá inn beint millilandaflug um flugvellina á Akureyri og Egilsstaði með verkefninu Nature Direct. Það verkefni er unnið í samvinnu Íslandsstofu, Isavia Innanlandsflugvalla, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar. 

Aukin umferð millilandaflugs  til Norðausturlands  er mikilvæg viðbót við ferðaframboð til Íslands. Flugið styður beint við stefnu stjórnvalda um að jafna sem mest komur ferðamanna til allra landshluta á öllum árstímum. Er það hryggjarstykkið í öllu markaðsstarfi ferðaþjónustunnar.  Það hefur gengið vel  að taka á móti farþegum á Akureyrarflugvelli síðasta vetur  þó að um leið hafi veirð mikið um framkvæmdir á vellinum. Mikið verk hefur verið unnið við framkvæmdir á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Endurbætur hafa verið gerðar á henni og viðbygging risið. Jafnframt hefur flughlaðið verið stækkað til muna. Nú þegar hyllir undir lok framkvæmda vegna stækkunar flugstöðvarinnar verður ánægjulegt að taka á móti fleiri farþegum næsta vetur.