Hoppa yfir valmynd
27.7.2022
Þjónustusamningur innanlandsflugvalla endurskoðaður á næsta ári - gjaldskrá væntanlega skoðuð

Þjónustusamningur innanlandsflugvalla endurskoðaður á næsta ári - gjaldskrá væntanlega skoðuð

Gildandi gjaldskrá innanlandsflugvalla er á meðal þess sem tekið verður til skoðunar þegar þjónustusamningur íslenska ríkisins við Isavia Innanlandsflugvelli um rekstur innanlandsflugvalla á Íslandi verður endurskoðaður á næsta ári. Núgildandi samningur er frá 2019 og rennur út í lok árs 2023. Gjaldskrá fyrir Reykjavíkurflugvöll og aðra innanlandsflugvelli er staðfest af innviðaráðuneyti og tekur árlegum hækkunum á grundvelli þjónustusamningsins.

Gjaldskráin hækkar í apríl ár hvert og samkvæmt ákvæðum þjónustusamnings er sú hækkun byggð á launa- og neysluvísitölu eins og hún stendur í septembermánuði árið á undan. Dæmin sem Fréttablaðið tekur í frétt sinni um gjald á Reykjavíkurflugvelli byggja á núgildandi gjaldskrá sem birt er opinberlega á vef félagsins.

Fréttablaðið bar útreikningana undir Isavia Innanlandsflugvelli og voru þeir í samræmi við gjaldskránna og réttir út frá þeim forsendum sem blaðið gefur sér. Þá var fyrirspurn blaðsins einnig svarað með upplýsingum um forsendur gjaldskrár og það að vinna við nýjan þjónustusamning hæfist á næsta ári.

„Vinna við gerð nýs samnings hefst um næstu áramót. Þá verða ýmsir fletir samningsins skoðaðir og má gera ráð fyrir að gjaldskrá verði þar á meðal,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla.