Hoppa yfir valmynd
15.6.2021
Fyrsta skóflustunga að 1100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli

Fyrsta skóflustunga að 1100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli

Fyrsta skóflustunguna hefur verið tekin að 1100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Þar með var markað upphafið að framkvæmdum við bygginguna en verktakar hefjast nú handa við að undirbúa byggingarreitinn. Það var Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem tók skóflustunguna bæði með gröfu og síðan skóflu.

Frá vinstri: Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla.

Hönnun byggingarinnar var boðin út í fyrrasumar og urðu Mannvit og Arkís hlutskarpastar og hafa síðan þá unnið að hönnun og útfærslu. Áætlað er að byggingaframkvæmdir hefjist í haust þegar byggingarreiturinn er tilbúinn og útboðsferli er lokið, en útboðsgögn verða auglýst á útboðsvef 28. júní næstkomandi.

 

Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaður og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Verklok eru áætluð í lok árs 2022. Þá verður ráðist í endurbætur á eldri hluta hússins. Heildarstærð flugstöðvarinnar verða þá 2700 fermetrar.

„Við stöndum á merkum tímamótum í dag. Við erum að hefja byggingu á nýrri flugstöðvarbyggingu sem getur þjónað millilandaflugi en höfum einnig tryggt fjármagn fyrir nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Grunnur er því lagður að öflugri ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi og ný störf verða til við framkvæmdir við flugstöð og flughlað. Tímasetningin á þessum fjárfestingum er góð því það skiptir miklu máli fyrir íbúa á Norður- og Austurlandi að vera vel í stakk búnir að taka á móti ferðamönnum að nýju þegar Covid-tímabilið er afstaðið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Það er gleðiefni að sjá hilla undir löngu tímabærar breytingar á flugstöðinni og í dag er formlega hafið nær tveggja ára framkvæmdatímabil sem verður fljótt að líða,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Óneitanlega mun það setja svip sinn á framkvæmdirnar að þetta er flugvöllur í fullum rekstri og þegar best lét fyrir heimsfaraldurinn voru á bilinu 10-12 flug á dag frá Akureyri. Öflugur hópur starfsfólks á flugvellinum, undir forystu Hjördísar Þórhallsdóttur flugvallarstjóra, mun tryggja gott ferðalag."

Matthías Imsland, stjórnarformaður Isavia Innanlandsflugvalla.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, ávarpar gesti.

Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Markaðsstofu Norðurlands.